Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[18:06]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarliðar kolfelldu hér áðan breytingartillögu um að hækka atvinnuleysisbætur til jafns við hækkun almannatrygginga. Ég trúi því ekki að það sé í alvörunni stefna ríkisstjórnarinnar að láta grunnatvinnuleysisbætur rýrna að raunvirði næstu mánuði. Ég trúi ekki öðru en að stjórnarliðar hafi fellt þessa tillögu vegna þess að þessu verði breytt með reglugerð eins og venjan hefur verið þegar hefur komið að hækkun atvinnuleysisbóta á undanförnum árum. Mér þætti vænt um að fá staðfestingu á því frá hæstv. félagsmálaráðherra: Á ekki örugglega að breyta reglugerð þannig að atvinnuleitendur sitji ekki eftir? Og ef ekki, hvers vegna í ósköpunum halda stjórnarliðar að atvinnuleitendur séu eitthvað betur varðir fyrir verðþrýstingi, vaxtahækkunum en þeir hópar sem komið er til móts við með beinum hætti í þessu frumvarpi? Á ekki örugglega að láta atvinnuleysisbæturnar fylgja hækkun almannatrygginga með breytingum á reglugerð eftir að þetta frumvarp hefur verið samþykkt?