152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

hlutafélög o.fl.

585. mál
[18:42]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja um þetta mikilvæga mál. Þó að það fari kannski ekki mikið fyrir því þá snýr það að því að lög og reglur um skipulagðan hlutabréfamarkað og skipulagðan markað séu skýrari. Ég hef því miður ekki upplýsingar um það hversu mörg félög hafa verið afskráð vegna þess að þau hafa ekki sinnt skyldu sinni, en ég mun komast að því og koma því til nefndar eða hv. þingmanns. Mér er það bæði ljúft og skylt. Svo langar mig að segja, af því að hv. þingmaður er kominn í andsvör, sem ég kann að meta, að í hruninu og eftirmálum hrunsins horfðum við jafnvel upp á það að félög höfðu ekki skilað ársreikningum og þetta truflaði verulega alla greiðslujafnaðargreiningu þjóðarbúsins. Þetta var svo alvarlegt í eitt sinn að það vantaði heila landsframleiðslu vegna eins félags sem ekki hafði skilað ársreikningi. Þess vegna er þetta mjög brýnt mál, því að á þessu tímabili var ekki ljóst hvort greiðslujöfnunin yrði sjálfbær og við fundum illa fyrir því í Seðlabanka Íslands þegar við vorum í þeirri vandasömu vinnu að þessi mál voru ekki í nægilega góðum farvegi.