Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[20:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir góða framsögu í þessu máli. Hér er annað mikilvægt mál á ferðinni. Möguleikar lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að ná sér í fjármögnun, og þá erum við sér í lagi að hugsa um nýsköpunarfyrirtæki, geta verið mjög takmarkaðir. Hér á landi eru einungis reknir örfáir svokallaðir vísisjóðir og oft er erfitt fyrir íslenska frumkvöðla að sækja fjármagn til erlendra vísisjóða þar sem það þarf gott tengslanet til þess að komast inn í þá. Þessari reglugerð og þessu umhverfi er ætlað að bæta möguleika á því að stofna og setja á fót svokallaða vaxtamarkaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þegar í dag er einn slíkur rekinn hér á landi undir nafninu First North í Kauphöllinni, en það að fá þessa reglugerð og þetta regluumhverfi inn gerir okkur kleift að hafa jafnvel fleiri slíka markaði og það sem meira er, það hleypir okkur líka inn í svipaða markaði á erlendri grundu innan Evrópusambandsins.

Allt frá því að þetta mál var fyrst rætt hér og borið fram af ráðherra hef ég talað vel fyrir því og var því samþykkur álitinu í utanríkismálanefnd og hvet þingheim til að styðja það þegar það kemur til afgreiðslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)