152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

ákvörðun nr. 76/2022 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

501. mál
[20:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir góða framsögu á stuttu og góðu nefndaráliti.

Áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa er nokkuð flókin skuldabréfategund. Rétt eins og með margt annað af því sem við höfum rætt í dag um tilskipanir tengdar fjármálaþjónustu þá eru þetta tilskipanir sem bæta regluverkið um fjármálamarkaðina og getum við þakkað vinum okkar í Brussel fyrir að vera duglegir að skrifa nýjar og fínar reglur því eins og við rákum okkur á, og mörg önnur lönd, árið 2008 þá voru regluverkin fyrir marga fjármálagerninga ekki nægilega góð til að tryggja að réttur neytenda og réttur þeirra sem nýta sér fjármálaþjónustu sé vel tryggður.

Þó svo að þessi ákveðna tilskipun eigi kannski ekki við í mörgum tilfellum á Íslandi er aldrei að vita hvenær fjármálaheiminum dettur í hug að nýta sér þetta sértryggða skuldabréfaform og því ánægjulegt að við séum með gott regluverk í kringum það.