152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

594. mál
[20:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Ísland undirgekkst alþjóðlegar skuldbindingar um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með aðild að alþjóðlega fjármálaagerðahópnum, betur þekktur sem FATF, eða, með leyfi forseta, Financial Action Task Force, árið 1991, en í því fólst skuldbinding um að aðlaga löggjöf og reglur hér á landi að tilmælum samtakanna. Gerð var úttekt af hálfu FATF sem lauk árið 2018. Í úttektinni komu í ljós ýmsir veikleikar á íslenskri peningaþvættislöggjöf og í kjölfarið voru sett ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þrátt fyrir að mikið vatn hafi runnið til sjávar með bættri lagaumgjörð og regluverki er baráttan gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka viðvarandi verkefni þar sem nýjar ógnir skjóta stöðugt upp kollinum, m.a. vegna örra tæknibreytinga. Í frumvarpi þessu eru einkum lagðar til breytingar á núgildandi ákvæðum laganna um sýndarfé. Breytingarnar eru lagðar til vegna uppfærslu sem gerð var á tilmælum FATF um sýndareignir árið 2019.

Hvað varðar sýndarfé lúta breytingarnar einkum að skilgreiningum á sýndarfé og þjónustuveitendum sýndarfjár. Þannig er lagt til að í stað orðsins „sýndarfé“ komi „sýndareignir“. Það er til samræmis við þróun á alþjóðavettvangi þar sem vísað er til hvers konar verðmæta á stafrænu formi en ekki sérstaklega til fjármuna. Þá eru lagðar til breytingar varðandi skráningarskyldu þjónustuveitenda sýndarfjár og skilyrði varðandi áreiðanleikakönnun um upplýsingar sem þurfa að fylgja með viðskiptum með sýndarfé. Einnig eru lagðar til breytingar á fjárhæðarmörkum þegar kemur að áreiðanleikakönnunum vegna viðskipta með sýndareignir. Samhliða áður tilgreindum breytingum um sýndareignir eru lagðar til afmarkaðar breytingar á öðrum ákvæðum laganna, m.a. með hliðsjón af þeirri reynslu sem orðin er á framkvæmd þeirra og út frá athugasemdum eftirlitsstofnunar EFTA.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem ætlað er að skýra þær kröfur sem gerðar eru til tilkynningarskyldra aðila við gerð áhættumats vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka auk breytinga á nánar tilgreindum ákvæðum um áreiðanleikakönnun slíkra aðila. Í báðum tilvikum er um að ræða grundvallaraðgerðir af hálfu tilkynningarskyldra aðila og því mikilvægt að þær kröfur sem gerðar eru til þeirra í lögum séu eins skýrar og unnt er.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar sem ætlað er að mæta athugasemdum sem ESA, eftirlitsstofnun EFTA, gerði í kjölfar úttektar á innleiðingu fjórðu peningaþvættistilskipunarinnar. Hefur jafnframt verið tekið tillit til þeirra breytinga sem gerðar voru á nefndri tilskipun með fimmtu peningaþvættistilskipuninni.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á tilteknum ákvæðum í viðurlagakafla laganna. Lúta þær breytingar fyrst og fremst að því að árétta að málsmeðferðarákvæði kaflans eiga einnig við um önnur viðurlög en stjórnvaldssektir. Opinber stefna íslenskra stjórnvalda er að íslensk löggjöf skuli á hverjum tíma innihalda fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfylla þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn slíkum brotum. Er frumvarpinu ætlað að mæta þeim kröfum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir því að það hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð né sveitarfélög.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.