152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

áfengislög.

596. mál
[22:25]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrr í vor lagði ég fram frumvarp um að afnema helgidaga úr áfengislöggjöfinni. Það er vel hægt að auka þjónustu til neytenda, til að mynda með því að opna Vínbúðina á sunnudögum án þess gefa áfengisverslun frjálsa.

Á Íslandi höfum við rekið ríkisútsölu á áfengi líkt og í Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum á meðan frjálsara er um söluna í Danmörku. Það er ekki að ástæðulausu að við viljum halda sölunni í stýrðu umhverfi, sérstaklega þegar við horfum til lýðheilsusjónarmiða. Reynslan hefur sýnt okkur að það hefur reynst vel, ekki eingöngu hér á landi heldur einnig í Svíþjóð, en árið 2018 var fýsileiki þess að gera áfengissölu frjálsa skoðaður. Niðurstaðan reyndist sú að gallarnir voru fleiri en kostirnir. Það er það sem við viljum í Framsókn, hafa aðgengi og geta keypt áfengi í öruggu umhverfi sem t.d. núverandi fyrirkomulag hefur upp á að bjóða. Með því að rýmka opnunartíma erum við líka að auka þjónustu verslana Vínbúðarinnar og lögum okkur að breyttum tíðaranda og verslunarhegðun en á sama tíma erum við að koma til móts við frjálslyndari sjónarmið án þess að galopna allt upp á gátt og gefa áfengissölu frjálsa með afleiðingum sem við getum engan veginn séð fyrir.

Fyrrverandi dómsmálaráðherra, líkt og fram hefur komið, lagði fram frumvarp haustið 2020 sem m.a. kvað á um undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi í smásölu til neytenda og heimilaði netverslun á áfengi í smásölu. Það frumvarp var ekki samþykkt af ríkisstjórn og var því lagt fram að nýju að framangreindu ákvæði frátöldu. Augljóst er að það er ekki pólitískur vilji til að stíga það skref til fulls og því er hér komin málamiðlun með frumvarpinu sem ég lagði fram í vor.

Huga verður að lýðheilsusjónarmiðum þegar við tökum þessa umræðu og aukið aðgengi og minna eftirlit er líklegra til að auka neyslu áfengis. Við höfum alveg séð þær rannsóknir. Þá má einnig færa sterk rök fyrir því að það sé betri bragur að hafa þetta í sérverslunum þar sem fólk þarf að gera sér ferð í búð til að kaupa sér áfengi þótt það væri ekki nema til að nefna, líkt og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á, af tillitssemi við fólk sem t.d. á við áfengisvanda að stríða og er í baráttu við þennan sjúkdóm og freistingar í matvöruverslunum geta verið alger óþarfi. Á Norðurlöndunum er álitið að hömlur á sölu áfengra drykkja séu áhrifarík leið til að draga úr þeim skaða sem hlýst af áfengisneyslu og áfengi er ekki eins og sérhver önnur vara. Slíkt gerum við með ábyrgum hætti í gegnum núverandi fyrirkomulag og mikilvægt er að við séum með öflugar forvarnir og lýðheilsufræðslu. Þar að auki höldum við uppi heilbrigðri endurnýjun og styðjum við lítil brugghús hér á landi með því að hafa þetta í höndum ríkisins að einhverju leyti, sem ber að tryggja heilbrigða samkeppni allra sem kjósa að koma vörum sínum á markað hér á landi og þannig tryggjum við íslenska framleiðslu og okkur í Framsókn leiðist það ekki.

Við þurfum að auka þjónustu. Við þurfum að laga okkur að breyttum tíðaranda. Þetta var einn vinkill á þessari umræðu. Hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að við stígum þetta skref til fulls og ég er mjög glöð að sjá að hér er stigið lítið skref í þessa átt. Ég hefði viljað sjá það stærra. Þær athugasemdir sem ég tek hér fram eru að ég set spurningarmerki við tvennt, kannski þrennt. Það er þetta sem ég var að koma inn á, að brugghúsunum sé ekki heimilt að hafa opið á sunnudögum og öðrum helgidögum þjóðkirkjunnar. Ég ítreka að ég sé ekki ástæðu til að takmarka þeirra verslun og þeirra sölu frá sínum framleiðslustað við það að við getum ekki stigið skrefið og leyft þeim að selja út á sunnudögum. Ég sé ekki muninn á því hvort það sé á föstudegi eða sunnudegi.

Í öðru lagi hefði ég viljað sjá að við stigjum stærra skref en þetta hænuskref með 500.000 lítra. Ég hefði viljað sjá milljón lítra, að heimild til sölu á framleiðslustað væri að hámarki milljón lítrar, ekki 500.000. Þetta takmarkar samkeppnisstöðu ákveðinna framleiðslustaða á Íslandi sem ég sé enga þörf á að gera og ég hefði viljað stíga þetta stærra skref.

Ég geri einnig athugasemdir við að frumvarpið fjalli ekki um veitingu afsláttar af áfengisgjöldum til framleiðslustaða en það væri íslenskum framleiðslustöðvum til hagsbóta og styður einnig við byggðasjónarmið.

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þegar hún segist vona að þetta frumvarp fari hratt í gegnum nefnd með þeim breytingum að við hækkum 500.000 lítra upp í milljón lítra og skoðum það af fullri alvöru að hætta þessari forræðishyggju og tökum ákvæðið um bann við að hafa opið á helgidögum og sunnudögum út úr áfengislöggjöfinni og út úr þessu frumvarpi líka. Svo þurfum við að skoða þetta með veitingu afsláttar af áfengisgjöldum til framleiðslustöðva til að styðja við byggðasjónarmið.