153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er eitt af lykilverkefnum stjórnvalda að tryggja byggðajafnrétti og tryggja jöfn tækifæri fólks óháð búsetu. Það gerum við með uppbyggingu innviða samfélagsins sem öll eiga að hafa aðgang að óháð búsetu. Við tryggjum búsetuöryggi með góðum fjarskiptum og með öruggu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það er mikilvægt að efla byggðarlög með betri samgöngum innan þeirra en ekki síður á milli þeirra. Betri samgöngur eru einmitt á mörgum stöðum ein forsenda þess að íbúar aðliggjandi byggðarlaga sjái hag í frekari sameiningu og landfræðilegri stækkun sveitarfélaga þar sem samgöngur eru ekki enn öruggar og greiðar, að slíkar sameiningar takist vel og skili tilgangi sínum.

Við sjáum í hendi okkar hverju Súðavíkurgöng myndu breyta fyrir það samfélag og mögulega sameiningu við Ísafjarðarbæ, að íbúar á Súðavík þyrftu ekki, með réttu eða röngu, að óttast það að börn þyrftu að ferðast daglega undir hættulega hlíðina því að tekin hefði verið ákvörðun um að loka skólanum. Aðstaða til frekari sameiningar sveitarfélaga við Breiðafjörð myndu gjörbreytast með tilkomu heilsársvegar um Skógarströnd og frekari samgöngubótum. Ekki er sjálfgefið að sameining Reykhólahrepps við önnur sveitarfélög við núverandi aðstæður skili fyrir það eitt beinum ávinningi fyrir verkefni sem þar þarf að sinna vegna legu sveitarfélagsins og samgangna. Annars staðar liggur sameining sveitarfélaga beint við eins og var með Helgafellssveit og Stykkishólm.

Að þessu sögðu vil ég víkja að síðustu vendingum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þar virðist nú, samkvæmt frumvarpsdrögum innviðaráðherra sem nú liggja í samráðsgátt, eiga að ganga frá fámennustu sveitarfélögum landsins með fjársvelti. Hlutverk jöfnunarsjóðs er ekki það að vera tæki til að þrýsta á um sameiningar sveitarfélaga eða hygla ákveðinni stærð þeirra og samsetningu heldur að vera jöfnunartæki sem endurspeglar þörf og samsetningu og tekjuskerðingar sem sjóðurinn hefur til áratuga verið ætlað að mæta. Að taka svo snarlega niður framlög til sumra þessara sveitarfélaga, eins og áform eru um, setur þau á vonarvöl. Framlög til Kaldrananeshrepps niður um 78,8%, (Forseti hringir.) Reykhólahrepps 53%, Súðavíkurhrepps 56,9%, Strandabyggðar 37,1%. Þetta er hrafnaþing þar sem hrafnarnir sem hafa parað sig saman til sveitar (Forseti hringir.) leggjast á smærri byggðir og sveitarfélög sem enn standa.