153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hef ég komið upp undir þessum lið, um störf þingsins, og rætt um innviði og innviðauppbyggingu og mikilvægi innviða í okkar samfélagi. Nú kem ég sem fyrr og ræði það og ætla að ræða sérstaklega ákall Gullna hringborðsins. Gullna hringborðið eru sem sagt allir þeir ferðaþjónustuaðilar sem tengjast Gullna hringnum sem horfa fram á verulega mikla aukningu ferðamanna þar nú í sumar og bara yfir allt árið. Það verður örugglega metfjöldi gesta þar, bæði innlendra sem erlendra. Þarna fer fram mjög fjölbreytt ferðaþjónusta. Í ákallinu segja þau, undir liðnum um áskoranir til framtíðar, að flest verkefni í Gullna hringnum kalli á stöðuga vöktun og virkni og samstarf og samráð eru þar lykilatriði. Ég tel mikilvægt að við hlustum á þetta og bregðumst við. Liðirnir sem þau telja svo upp í ákallinu er að það þarf að gera aðgerðaáætlun strax um það hvernig takast eigi á við þennan mikla fjölda ferðamanna og aukningu. Vegakerfið og samgöngurnar heilt yfir þarf að aðlaga að þessu. Það þarf að tryggja öryggi allra þessara gesta. Landvarslan þarf að vera til staðar til að vernda okkar mikilvægu náttúru og viðkvæmu. Það þurfa að vera innviðir til að taka á móti fólkinu, hinir ýmsu innviðir, og það þarf að vera hægt að álagsstýra svæðinu og öllu sem þar er. Þau leggja til að það verði skipaður, eins og frægt er í dag, spretthópur til að takast á við málið og skora ég á okkur þingheim til að taka þessu ákalli og hjálpa þeim við að takast á við þessar áskoranir.