153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er hingað komin rétt einn sprettinn til að ávarpa þann hrylling sem er að gerast í mínu sveitarfélagi, þ.e. áform um fiskeldi í Seyðisfirði. Hæstv. innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, staðfesti á dögunum tillögu svæðisráðs Austfjarða að strandsvæðaskipulagi fyrir Austfirði. Það er með ólíkindum að hvorki stjórnvöld, sveitarfélög eða nokkur geti hlustað á 75% íbúanna sem hafna þessu. Það getur ekki staðist að þessu verði þrýst í gegn að kröfu erlendra fjárfesta. Hér koma þingmenn dag eftir dag og tala um örmagna þjóð, uppgefin ungmenni í menntaskólum og slæma stöðu geðheilbrigðismála. Staðan er sú að við erum öll að hlaupa á eftir einhverri arðsemiskröfu. Það þarf að keyra yfir lýðræði, það þarf að keyra yfir allt til þess bara að mæta þessari þörf. Ég biðla til þingmanna kjördæmisins, Norðausturkjördæmis, að standa í lappirnar gagnvart vilja íbúanna. Sameining Múlaþings byggði á því að hvert sveitarfélag fengi að halda sínum séreinkennum. Á Seyðisfirði hefur árum og áratugum saman verið unnið að uppbyggingu menningar, lista, náttúruverndar og svo mörgu öðru. Það er talað um fjölbreytt atvinnulíf; í Seyðisfirði er fiskvinnsla, þar er landbúnaður og engin eftirspurn eftir fiskeldi nema frá erlendum fjárfestum. (Forseti hringir.) Sveitarstjórnarfólk og við hér á þingi verðum að standa í lappirnar til að stoppa þetta.