132. löggjafarþing — 81. fundur,  9. mars 2006.

ÖSE-þingið 2005.

557. mál
[18:41]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2005. Ég ætla ekki að lesa skýrsluna, hún liggur fyrir á þingskjali og ég treysti því að hv. þingmenn geti þá kynnt sér efni hennar í hörgul. Ég vil byrja á því að geta þess að í henni er villa. Það stendur að ársfundurinn hafi verið haldinn í Edinborg en hann var haldinn í Washington, þannig að það komi fram.

Ég ætla rétt aðeins að stikla á stóru, gera mun á ÖSE-stofnuninni sjálfri og ÖSE-þinginu. ÖSE-stofnunin var stofnuð á grundvelli Helsinkisamkomulagsins frá 1974 og vinnur að framgangi öryggismála í Evrópu. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Í ÖSE eru 55 ríki og ná þau allt frá Norður-Ameríku, Kanada og Bandaríkjunum og austur til Kákasus, Rússlands og Kirkistans o.s.frv. og eru víðfeðmustu samtök á þessu sviði. Sem dæmi um starfsemi ÖSE má nefna afvopnunarmál, fyrirbyggjandi erindrekstur o.s.frv., og stofnunin gætir að mannréttindum og lýðræðisþróun og hagrænu öryggi og umhverfisöryggi.

ÖSE-stofnunin sjálf er með um 3.000 manns sem starfa úti á sviðinu við að gæta að þessum atriðum sem um er rætt. Það má segja að ÖSE hafi fengið sérstakt verkefni þegar átökunum á Balkanskaga lauk en þá fékk stofnunin það hlutverk að stuðla að uppbyggingu þess svæðis. Auk þess berst ÖSE-stofnunin gegn mansali, eiturlyfjasmygli og vopnasmygli. ÖSE-þingið er hins vegar tilnefnt af þjóðþingum og starfar til hliðar við ÖSE-stofnunina og ályktanir ÖSE-þingsins eru svo kynntar fyrir ÖSE-stofnuninni og þannig hefur það áhrif.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins skipa hv. þingmenn Pétur H. Blöndal formaður, Dagný Jónsdóttir varaformaður og Jóhanna Sigurðardóttir. Ritarar Íslandsdeildarinnar voru Andri Lúthersson, sem var ritari til 1. september, og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem þá tók við. Ég vil nota tækifærið og þakka báðum riturunum fyrir sérstaklega gott og ánægjulegt samstarf og líka þeim þingmönnum sem störfuðu með mér í þessari deild.

Starfsemi ÖSE-þingsins fer fram á þremur fundum. Það er fastur fundur í Vín á hverjum vetri, í febrúar, og síðan eru fundir víðs vegar í aðildarlöndunum, síðast í Washington nú síðasta sumar. Einnig var haldinn fundur í Sveti Stefan í Svartfjallalandi sem formaður deildarinnar sótti.

Eftirminnilegast úr starfi Íslandsdeildarinnar er að að frumkvæði formanns deildarinnar var stofnuð sérnefnd í ÖSE-þinginu um fjármál ÖSE, sem átti að kanna þau fyrir tveimur árum. Því miður hefur ekki orðið sá árangur af því starfi sem vænst var en nefndinni var ætlað að kanna og hafa áhrif á fjárlög ÖSE-stofnunarinnar á svipaðan hátt og fjárlaganefndir þjóðþinga gera, þ.e. hafa eftirlit og ákveða fjárlög viðkomandi stjórna. Af því hefur því miður ekki orðið en áfram er unnið að því.

Ég hef áður gagnrýnt það í starfi ÖSE-þingsins að mér finnst þessar stofnanir farnar að snúast dálítið mikið um sjálfar sig. Það var mikið rætt um ráðningu framkvæmdastjóra sem starfað hafði hjá ÖSE-þinginu frá upphafi, þegar þurfti að framlengja það. Einnig hefur mikið verið rætt um ýmsar ályktanir og breytingar á reglum. Hins vegar finnst mér að ÖSE-þingið þurfi að hafa skarpari markmið, ekki bara að samþykkja ályktanir heldur líka hafa áhrif, eins og í öðrum þingum, á hvað ÖSE-stofnunin gerir. Henni þarf að setja reglur og einnig, eins og þing aðildarríkjanna gera, setja framkvæmdarvaldinu lög til að fara eftir. Eins finnst mér að hún eigi að koma nálægt fjármálunum. Þess vegna var þessi nefnd skipuð.

Ég ætla ekki að fara nánar í skýrsluna sem slíka en mig langar rétt aðeins til, eins og ég hef gert áður, að ræða um tilgang alþjóðasamstarfsins.

Alþjóðasamstarfið beinist að því að berjast gegn glæpastarfsemi, mansali, jafnvel þrælasölu, eiturlyfjasmygli, vopnasmygli og peningaþvætti. Síðan er tekist á við faraldra, stóráföll, jarðskjálfta, eldgos og þvílíkt. Unnið er að því að stuðla að lýðræðisþróun og gæta mannréttinda. Ýmsar alþjóðastofnanir sinna kosningaeftirliti þar sem þingmenn frá lýðræðisríkjum eru sendir til að fylgjast með kosningum og kanna hvort þær fari lýðræðislega fram, þ.e. hvort kosningarnar séu leynilegar og ekki undir hótunum, farið sé rétt með kjörgögn og annað slíkt. Þetta hefur sýnt sig sem mikilvægur þáttur í starfsemi ÖSE sem og annarra alþjóðastofnana.

Ég held að Íslendingar geti ekki skirrst við að taka þátt í alþjóðastarfi. Við erum jú háð því að friður sé á jörðinni og hafður hemill á alþjóðlegri glæpastarfsemi. Þáttur í því að stuðla að friði er einmitt að stuðla að lýðréttindum og gæta mannréttinda. Fyrir utan það segir réttlætiskenndin, herra forseti, manni að gæta mannréttinda, ekki bara hér á landi heldur líka erlendis.

Þegar rætt er um alþjóðastofnanir sem standa í eftirliti, t.d. kosningaeftirliti þá má bæði nefna Evrópuráðið og ÖSE. Svo erum við líka með NATO, sem eru alþjóðasamtök. Þessi samtök hafa flest gengið í gegnum ákveðna tilvistarkreppu. Hjá NATO hvarf óvinurinn sem þau voru stofnuð til að verjast, sem voru Sovétríkin. En nýir óvinir taka við, segja sumir, þ.e. hryðjuverkamenn. En hættan er sú að þessi samtök fari að lifa sjálfstæðu lífi. Starfsmenn þeirra hafa lifibrauð sitt af starfseminni og þingmenn sem að málunum starfa hafa ákveðinn hag af því að ástandið sé óbreytt. Þess vegna er mikilvægt að menn velti fyrir sér á hverjum tíma hlutverki samtakanna, hvort starfið sé rétt á þennan hátt eða annan. Ég hef sagt að ÖSE-þingið þurfi að fá stærra hlutverk en bara við kosningaeftirlit og slíkt. Það ætti í raun eitthvað að hafa með fjárveitingavald ÖSE-stofnunarinnar að segja, þar sem lítið eftirlit er með fjárveitingum. Það ætti jafnvel að hafa ákveðið reglugerðarvald og eitthvað um það að segja hvað skuli gera, t.d. í baráttu gegn mansali, eiturlyfjasmygli, vopnasmygli eða peningaþvætti.

Ég hef bent á það hjá ÖSE að lækka mætti kostnaðinn með að taka upp fjarfundi í auknum mæli. Það er miklu ódýrara form en þá var því svarað til að mörg viðkomandi landa hefðu ekki þá tækni sem til þarf. En hún mun örugglega koma innan ekki langs tíma. Það hefur verið kappkostað að hafa stutta fjarveru frá þinginu og eru ekki teknir inn varamenn vegna nefndarmanna. Það kostar þingið mjög mikið og þingmönnum hefur verið uppálagt varðandi starf sem fram fer í nefndum Alþingis, að þeir fái þá samflokksmenn sína til að sinna því á meðan. Svo hafa menn fengið dagpeninga. Þannig hefur þetta gengið.

Af hverju nefni ég þetta, herra forseti? Jú, nýverið hefur komið upp umræða um ferðir til Tævans í boði ríkisstjórnarinnar þar. Mér finnst eðlilegt að menn spyrji hvort eitthvað sé á bak við það og hvort það sé eðlilegt. Það á alltaf að spyrja að hvort gerðir manna séu réttar eða rangar. Ég tók þátt í svona ferð sjálfur, herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort það væri rétt eða rangt og taldi eftir smáumhugsun að það væri rétt að fara og kynna mér mál þessa heimshluta. Ferðin var ekki farin á vegum Alþingis vegna þess að það er ekki stjórnmálasamband á milli þessara eyja. Þessi ferð kostaði Alþingi ekki dagpeninga og kostaði ekki að teknir væru inn varamenn því að hún stóð ekki það lengi.

Ég tel að bæði fyrir og eftir þessa ferð skuldi ég ríkisstjórn Tævans ekki neitt heldur hafi ég farið þarna til að kynna mér mál og þetta var virkilega fróðleg ferð. Hún var fróðleg og varpaði ljósi á erfiða og frosna stöðu í þessum heimshluta. Ég hugsa að margar þær ferðir sem ég hef farið á vegum Alþingis, ég held að ég hafi alltaf verið á vegum Alþingis fram að umræddri ferð, hafi jafnvel haft minni tilgang en sú sem ég fór til Tævans.

Þar er staðan sú að eftir heimsstyrjöldina síðari, á fyrri hluta síðustu aldar, myndaðist ákveðið ástand sem er mjög til baga. Það hefur haft ótrúlegar hremmingar í för með sér fyrir almenning á öllu því svæði. Ég vil nefna afkomendur Japana sem réðu eyjunni í 50 ár og voru síðan allt að því flokkaðir sem landráðamenn í landinu. Síðan nefni ég afkomendur Kínverja sem flúðu þar yfir á sínum tíma og gátu ekki hitt fjölskyldur sínar í 40 ár. Ég veit ekki hvort Íslendingar geri sér almennt grein fyrir hvað það þýðir að hitta t.d. ekki konu og börn í 40 ár. Það er óskaplegt. En þetta er því miður, herra forseti, allt of algengt.

Alþjóðastofnanir þurfa síðan að takast á við fyrirbæri sem ekki virða landamæri, t.d. alls konar faraldra, t.d. fuglaflensu, ef hún skyldi koma upp. Flensan væri ekkert að spyrja að því hvernig pólitíska staðan er í Tævan ef hún skyldi stinga sér þar niður. En þá vill svo til að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tilnefnt Kína sem fulltrúa sinn í Tævan. En þangað hafa þeir ekki komið í 50 ár. Það getur orðið mjög bagalegt og allt að hættulegt fyrir heimsbyggðina að Tævan sé ekki tekið inn í Alþjóðaheilbrigðisstofnunina eins og maður hefði talið eðlilegt.

Þetta er mjög vandasamt mál, herra forseti. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að þarna er ákveðin deila í gangi og maður þarf að skilja sjónarmið beggja aðila. Ég geri að vissulega. Ég held því ekki fram að annar aðilinn hafi rétt fyrir sér og hinn rangt. Langt í frá. En þarna er skrýtin staða sem við þurfum að átta okkur á og mér fannst ég fá mikla fræðslu, herra forseti, um vandamál þessa heimshluta í ferðinni, sem tók fimm daga. Þar af voru, ef ég man rétt, þrír þingdagar.

Við þurfum líka að átta okkur á því að í Kína, í þessu mannflesta ríki heimsins, er að verða ein mesta breyting sem í gangi er á jörðinni. Það er mikilvægt að við fylgjumst með þeirri breytingu. Við höfum fengið marga góða gesti frá Kína til Íslands sem hafa kynnt okkur sín sjónarmið. Við höfum heyrt af Íslendingum sem hafa farið til Kína og við erum með sendiráð í Kína. Þau samskipti eru mjög góð. Við þurfum að átta okkur á þeim vandamálum sem eru í gangi í þeim heimshluta, m.a. vandamálum sem tengjast Tævan. Ég endurtek að ég ætla ekki að gera lítið úr þeim vandamálum sem þar eru. Ég ætla ekki að segja að þau séu auðleyst. Þau eru ekki auðleyst.

Mikilvægast er náttúrlega að menn þekki stöðuna. Ég tel því að mjög rangt hafi verið af mönnum að deila á þessa ferð. Ég læt engan segja mér hvert ég fer sem stjórnmálamaður. Ég fer ekkert eftir ákveðnum fyrir fram gefnum formúlum til ákveðinna funda heldur vil ég hafa frelsi til að skoða mál þar sem þau koma upp. Þessi ferð var farin af því tilefni.

Ég tel hins vegar að umræðan um þetta eigi rétt á sér. Menn eiga alltaf að spyrja hvort það sé rétt að taka þátt í þessu eða hinu samstarfinu erlendis. Eins og ég gat um held ég að Íslendingar geti ekkert fríað sig því að taka þátt í erlendu samstarfi.