135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfslok forstjóra Landspítala.

[15:18]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mér er vel kunnugt um það að heilbrigðismál heyra undir hæstv. heilbrigðisráðherra en þegar um svona stórt mál er að ræða þarf ekki að segja mér að þessi atburður hafi átt sér stað án þess að hæstv. forsætisráðherra hafi komið að málum. Ég tel algjörlega ljóst að svo hafi verið og ég leyfi mér að halda því fram að þetta tengist því sem hæstv. forsætisráðherra sagði um það leyti sem sú ríkisstjórn var mynduð sem nú situr þegar hann var að réttlæta samstarfið við Samfylkinguna við flokksmenn sína á fundi með þeim í Valhöll. Þá sagði hæstv. forsætisráðherra að hann gæti náð fram breytingum á heilbrigðiskerfinu í samstarfi við Samfylkinguna sem hann næði ekki fram í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Þessi aðgerð á Landspítalanum tengist því sem þar var sagt, leyfi ég mér að fullyrða. Ef hæstv. forsætisráðherra getur haldið því fram að svo sé ekki að þá skal hann reyna að rökstyðja það hér.