136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi samanburð á háskólamenntun er ég bara stærðfræðingur, reyndar með doktorspróf í þeirri grein, en hef ekkert lært um peningamál nema af reynslunni.

Varðandi Bandaríkin, ég sagði ekki að viðskiptahalli Íslands hafi ekki verið geigvænlegur. Hann var vissulega geigvænlegur og alveg skelfilegur og ég benti margoft á það í ræðustól Alþingis. En viðskiptahalli Bandaríkjanna er öllu skelfilegri nema að þeir hafa í 100 ár getað flutt út dollara til að standa undir honum. Það er munurinn. Allur heimurinn hefur sankað að sér dollurum en við höfum ekki getað flutt út krónur, því miður. (Gripið fram í: Það hefði mátt reyna.)

Ég held að útrásin og kaup útrásarvíkinganna svokölluðu á fyrirtækjum um alla Evrópu hafi að mestu eða eiginlega öllu leyti verið fjármögnuð með erlendum lánum á lágum vöxtum. Við sjáum örlög banka eins og Royal Bank of Scotland sem var mikið með útrásarvíkingunum okkar í bræðralagi, þannig að ég held að það sé aðalástæðan en ekki það að menn hafi notað sér lágt gengi gjaldmiðla á Íslandi.

Hins vegar ef í ljós kemur við rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis og sérstaks saksóknara á þessum málum öllum að menn hafi gert einhverja óheiðarlega hluti í sambandi við gengið finnst mér sjálfsagt að þeim verði refsað fyrir það. Ég ætla ekki að bera í nokkurn bætifláka fyrir slíkar aðgerðir.