140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara svo hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sofi rólegur í nótt skal það tekið fram að ég er ekki aðdáandi stjórnarfarsins í Kína. Við vorum að ræða frammistöðu mismunandi kerfa í efnahagslegu tilliti og þá verður varla fram hjá því horft að það hefur verið mikill hagvöxtur á því bóli undanfarin ár hvað sem um stjórnarfarið má segja.

Ein ástæða þess að íslenskur sjávarútvegur er jafnarðsamur og raun ber vitni er náttúrlega sú að við eigum einhverjar ríkulegustu auðlindir sem um getur á byggðu bóli í þessum efnum, enda var mikið í þær sótt áður en við tókum forræðið yfir þeim í okkar hendur. Við njótum þess líka að okkur hefur tekist að fara sæmilega með þær og stjórna fiskveiðum á ábyrgan hátt. Greinin hefur staðið sig mjög vel og þróast, það er líka rétt, enda er ekki ætlunin að kippa fótunum undan því. Það er viðfangsefni okkar að rökræða hvar þau mörk liggi.

Hitt er gleðilegt, að þær tölur sem við erum að ræða eru jafnháar og raun (Forseti hringir.) ber vitni þessi missirin af því að það er alveg sérstaklega góð afkoma í greininni við núverandi aðstæður með lágu raungengi, góðum aflabrögðum og háu verði á mörkuðum.