143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það sem tekist hefur í þessu máli, að taka flokkspólitíska hagsmuni út úr málinu. Auðvitað á ekki að berjast í skotgröfum þegar við fjöllum um náttúruvernd í landinu, náttúruverndarlög. Ég þakka bæði meiri hlutanum og minni hlutanum í nefndinni og ekki síst formanninum fyrir að hafa gengið vasklega fram í því. Þegar ég skynjaði þá umræðu sem þar átti sér stað tók ég þá tali sem þar eru í forsvari og lagði til að við reyndum að fara þessa leið.

Hluti af því samkomulagi er áframhaldið, sem er líka óvanalegt, að framkvæmdarvald og löggjafarvald vinni að því saman að klára þetta mál. Ég vænti þess að við náum samstöðu um það. Það sem mér finnst mikilsverðast er að ná eins víðtækri sátt og hægt er um jafn mikilvægt mál og náttúruvernd og náttúruverndarlög eru án þess að þar séu einhverjar hefðbundnar gamlar skotgrafir.