145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

markmið verkefnisins Ísland 2020 -- sókn fyrir atvinnulíf og samfélag.

350. mál
[16:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem töluðu síðast. Ég vil minna hæstv. forsætisráðherra á að við sátum saman fundi í Mývatnssveit fyrir stuttu, í síðustu kjördæmaviku. Þar var aðeins farið yfir þessi mál og við innt eftir því hvers vegna ekki væri hægt að halda áfram á þeirri braut sem hafist var handa við á síðasta kjörtímabili með sóknaráætlanir landshluta. Ráðherra var inntur eftir því breytta verklagi sem fólst í norðvesturnefndinni og því fyrirkomulagi. Það var eiginlega ekki hægt að skilja fundarmenn öðruvísi en svo að þeir teldu að hitt fyrirkomulagið væri betra, væri skynsamlegra. Það get ég líka sagt sem fulltrúi í fjárlaganefnd. Það veit hæstv. ráðherra. Við höfum rætt það frá því að hann kom hingað og varð forsætisráðherra, á hverju einasta ári, t.d. við gerð fjárlaga þar sem við lögðum til aukna fjármuni, vegna þess að sveitarstjórnarfólk um land allt segir: Þetta er leiðin. (Forseti hringir.) Hún var ekki hnökralaus í fyrstu, ekki frekar en margar aðrar aðgerðir, en niðurstaðan er sú að sveitarstjórnarfólk um land allt er ánægt með þá framkvæmd.