149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

meðferð einkamála og meðferð sakamála.

496. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og fagna því að þetta mál nái fram að ganga. Þetta er mikil réttarbót fyrir fólk með heyrnarskerðingu þar sem verið er að sjá til þess að fólk sem er fyrir rétti og þarf að fara í skýrslutöku og annað slíkt fái túlka sem er bara í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ég gerði hins vegar grein fyrir því í umræðu um þetta mál að ég hefði viljað sjá að það næði líka til þess þegar verið væri að undirbúa mál, þ.e. áður en fólk fer inn í réttinn. Það varð hins vegar sameiginleg niðurstaða í nefndarálitinu að það væri annað mál. Ég er ekki endilega sammála því en ég styð hins vegar þetta mál því að það er mikil réttarbót.