149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna. Ég stenst eiginlega ekki mátið, þeir eru svo sjaldséðir þessir hvítu hrafnar, stjórnarþingmenn í þessari umræðu, að ég ætla að fá að nota tækifærið og velta einu máli upp sem lýtur að áhrifum flutnings Fiskistofu til Akureyrar á starfsemina.

Það var töluvert í fréttum á sínum tíma þegar flutningur átti sér stað og var mikið gagnrýnt og rætt um að betur hefði mátt standa að málum. Síðan kemur fram í skýrslunni að staðfest er mikil starfsmannavelta, kostnaðarsamir flutningar, neikvæð áhrif á starfsanda o.s.frv. og síðan má bæta því við að í ársskýrslu fyrir Fiskistofu 2015, held ég, hafi komið fram að við þær aðstæður þurfti að leggja mikið kapp á að verja þessa kjarnastarfsemi, að minna púður er lagt í hluti eins og gæðaeftirlit og annað og þarf svo sem engan spámann til að átta sig á því að það er ákveðin ástæða þess að Fiskistofa fær þessa falleinkunn í skýrslu núna.

Ég velti eiginlega fyrir mér hvort hv. þingmaður geti verið mér sammála í því að við sjáum hérna dæmi um hvernig ekki á að færa til ríkisstofnanir, hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að þetta sé hluti af málinu og að hérna sé að finna lærdóm fyrir okkur líka að draga. Við höfum öll áhuga á því að byggja upp starfsemi víða um land, þar með talið á þann hátt að fólk sem býr, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, geti sem helst valið sér starf eftir áhugasviði og færni. En að það sé nokkuð ljóst að menn þurfi að finna aðrar leiðir en að flytja heilu stofnanirnar með valdboði og að undirbúningurinn sé ekki (Forseti hringir.) betri en raun ber vitni í þessu tilfelli og sé hluti af því sem hafi haft neikvæð áhrif á þá mikilvægu starfsemi sem þarna fer fram.