149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[16:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Satt best að segja kom mér nokkuð á óvart þegar ég sá skýrsluna að það sem vantar upp á verklagið get ég ekki séð að í skýrslunni sé á neinn hátt rakið beint til rasksins sem óhjákvæmilega varð vegna flutninganna. Hins vegar er það hárrétt sem hv. þingmaður sagði, starfsmannavelta jókst á tímabili. En svo er náttúrlega til hins að líta að starfsmannahópurinn er nokkuð dreifður, hann er ekki allur á einni starfsstöð, hvorki fyrir né eftir þessa flutninga. Ég hugsa þó, eins og hv. þingmaður benti á, að flestir þeir sem komu að flutningunum á sínum tíma myndu vinna á einhvern annan hátt en þá var gert ef farið væri aftur í þetta núna.

Ég hef heimsótt stofnunina, aðalskrifstofur stofnunarinnar á Akureyri, og upplifði þá ekki annað en að komin væri mikil ró í kringum starfsemina og góður starfsandi í nýrri starfsaðstöðu eftir að rótið sem fylgdi flutningunum var gengið yfir. Ég vil bara ítreka að það kom mér á óvart að sjá ekkert af þessum ágöllum tengt beint við þetta rót.