149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[17:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fiskistofu. Við lestur álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar setur mann eiginlega hljóðan. Þar kemur skýrt fram að ríkisendurskoðandi meti framkvæmd vigtunar á hafnarvog misjafna og ekki ávallt í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann segir að það sé verið að brjóta lög. Ég spyr mig: Hversu langan tíma hefur það viðgengist að það megi brjóta lög í þessu máli? Einnig kemur fram að eftirlit Fiskistofu með vigtun almennt sé takmarkað, óskilvirkt og fyrirkomulag vigtunar bjóði upp á umtalsverð frávik í skráningu. Þarna eru því lögbrot og vitlausar skráningar.

Það hlýtur að segja okkur að það er eitthvað mjög alvarlegt að. Við erum að tala um næststærstu atvinnugreinina okkar í dag. Ég hugsa að ferðamennskan sé búin að taka yfir. Við erum farin að róa á þau mið. En það er eins gott að við komum ekki fram á þeim vettvangi eins og við komum fram gagnvart fiskimiðunum okkar.

Í álitinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Eftirlit með brottkasti er einnig afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst. … Raunverulegur árangur eftirlits sé auk þess á huldu enda liggi ekki fyrir skýr árangursviðmið eða árangursmælikvarðar.

Að mati ríkisendurskoðanda styður eftirlit Fiskistofu með vigtun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og laga um umgengni um nytjastofna sjávar.“

Þarna er verið að segja að í stórum stíl séum við hreinlega umhverfissóðar gagnvart veiðiheimildum og fiski í sjónum. Það hlýtur samt að vera svolítið undarlegt að við, sem teljum okkur hafa verið fiskveiðiþjóð allan þennan tíma, frá því að land byggðist, skulum vera stödd á þessum stað. Í álitinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í Danmörku hefur verið notað rafrænt eftirlit með góðum árangri en sjá mátti breytta aflasamsetningu eftir upptöku þess.“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telur rétt að það verði skoðað að Fiskistofa fái aðgang að rafrænum upplýsingum um niðurstöður vigtunar í rauntíma og heimild til að nýta fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum. Danir hafa tekið upp miklu betra eftirlitskerfi en við. Þá er spurningin: Hvers vegna í ósköpunum eru þeir langt á undan okkur, ef það er rétt?

Einnig kemur fram að Fiskistofa hafi verið undirmönnuð frá 2013–2017 og þar af leiðandi geti hún ekki sinnt eftirliti sínu með fullnægjandi hætti. Það kemur einnig fram í skýrslunni að starfsmönnum Fiskistofu hefur fækkað um 29% frá árinu 2008 samhliða því að verkefnum hafi fjölgað. Þá hefur Fiskistofa enn fremur bent á að bæta þyrfti regluverkið til að styrkja stofnunina í hlutverki sínu. Var verið að valda Fiskistofu vísvitandi og viljandi skaða? Var verið að sjá til þess að hún gæti ekki fylgt eftirlitinu eftir, gæti ekki unnið vinnuna sína, með 30% niðurskurði og auknum verkefnum? Miðað við þetta hlýtur eitthvað svoleiðis að hafa verið í gangi.

Í fylgiskjali, áliti atvinnuveganefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu, segir:

„Ríkisendurskoðandi nefndi að Hafrannsóknastofnun hefði ekki ráðist í rannsóknir á tegundaháðu brottkasti í rúman áratug og gagnasöfnun um lengdarháð brottkast hefði dregist talsvert saman undanfarin ár.“

Í frétt á mbl.is, byggðri á því sem kom fram í Kveik, segir orðrétt:

„„Ég hef verið á mörgum skipum. Alls staðar hefur verið brottkast,“ sagði sjómaðurinn Trausti Gylfason í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV nú í kvöld. Þar var sýnt myndefni sem Trausti tók úti á sjó á árunum 2008–2011 og sýndi mikið brottkast á fiski, en brottkast er bannað með lögum.

„Þetta er bara subbuskapur af verstu gerð. Og auðvitað mjög alvarlegt. Svona skipstjórnarmenn eiga ekki að fá að stunda veiðar,“ sagði Eyþór Björnsson, forstjóri Fiskistofu, í viðtali þegar hann horfði á myndefnið, sem tekið var upp á skipinu Kleifabergi.

Í þættinum kom fram að fiski væri í einhverjum tilvikum kerfisbundið kastað í sjóinn, stundum í hverjum túr. „Nú er ekkert hægt að reka mig lengur fyrir þetta. Mér finnst rétt að þetta komi fram,“ sagði Trausti í þættinum, en hann missti vinnuna fyrr á árinu. Á myndunum sést hvernig þorski, karfa, makríl og ýsu er kastað í sjóinn í stórum stíl.“

Maður verður eiginlega orðlaus. Ég stundaði smásjómennsku fyrir 30–40 árum, handfæri, net og troll, og þá datt ekki nokkrum manni í hug, á þeim bátum sem ég var á, að henda nokkrum fiski í sjóinn. Það var allt nýtt. En nú virðist krafan vera önnur og eftirlitið ekkert. Það er hægt að henda fiski eftirlitslaust og okkur dettur ekki einu sinni í hug að hafa rafrænt eftirlit. Við erum að hugsa um að koma því á, en Danir eru löngu búnir að koma því á.

Í áliti atvinnuveganefndar segir líka:

„Atvinnuveganefnd tekur undir með ríkisendurskoðanda að sjávarútvegur er einn veigamesti og arðbærasti atvinnuvegur landsins og því er mikilvægt að eftirlit með nýtingu sjávarauðlindarinnar og umgengni við hana sé traust og í samræmi við lög. Nefndin fagnar skjótum viðbrögðum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við ábendingum ríkisendurskoðanda og hvetur til þess að unnið verði að úrbótum í samræmi við niðurstöður skýrslunnar.“

Það er eiginlega óskiljanlegt að í dag þurfi að hvetja til þess að farið sé að lögum og reglum. Ég held að það væri eiginlega þess virði að athuga og gera könnun á því og fá skýrslu um það hvernig í ósköpunum þetta gat skeð. Hver ber fulla ábyrgð á þessu? Þetta hlýtur að segja okkur að einhver beri ábyrgð á því að eftirlitið sé algerlega í lamasessi, að hægt sé að henda fiski og ganga um þessa auðlind okkar á þennan hátt.

Einnig er bent á í þessari skýrslu að eftirlit Fiskistofu með samþjöppun aflaheimilda byggist fyrst og fremst á tilkynningum frá handhöfum aflaheimilda. Það virðist vera geðþóttaákvörðun þeirra sem eru að veiða og eiga þessar aflaheimildir, sem eru að nýta þessar aflaheimildir, án þess að borga nálægt því rétt verð til þjóðarinnar fyrir, að sjá um tilkynningar. Þeir eiga sjálfir að sjá um tilkynningar og hafa eftirlit með sjálfum sér.

Ég held að þetta sé áfellisdómur yfir okkur hér á þinginu og þingmönnum. Við verðum að sýna betra fordæmi. Við verðum að átta okkur á því að það er krafa um önnur vinnubrögð gagnvart náttúrunni. Við höfum orðið vör við það undanfarna föstudaga að hingað á Austurvöll mætir ungt fólk til að mótmæla, til að berjast fyrir náttúrunni. Stór hluti af því er að umgangast auðlindirnar okkar af virðingu og sjá til þess að ekki sé verið að valda stórskaða.

Síðan er það annað, byggja á risahús yfir Hafrannsóknastofnun. Ég spyr mig: (Forseti hringir.) Ættum við kannski að nefna það Loðnuna? Bara í minningu loðnunnar sem er horfin, öðrum til áminningar. Ef við förum ekki að ganga betur um auðlindina, hvað verður þá um alla hina stofnana? Verða þeir eins og loðnan — horfnir?