150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vandræði ferðaþjónustunnar.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er engin leið að segja nákvæmlega hvenær botninum verður náð hjá ferðaþjónustunni. Ég held að við séum ekki búin að finna botninn. Ég held að mjög erfiðir mánuðir séu fram undan. Það er útilokað að fullyrða neitt um það hvort ferðamönnum taki að fjölga á ný, mánuð fyrir mánuð, í sumar, svo dæmi sé tekið. Það er bara ekki tímabært að fullyrða neitt um það. Ég er alveg sannfærður um að áhrifin af þessari krísu munu teygja sig inn á næsta ár en við munum finna einhvern tímann á þessu ári, að mínu áliti, einhvers konar viðspyrnu. Ég segi þetta vegna þess að ég trúi því að þetta sé tímabundið ástand, að faraldurinn gangi yfir og að hlutirnir muni að nýju á þessu ári komast smám saman í eðlilegra horf. En við munum hins vegar ekki endurheimta stöðu ferðaþjónustunnar á þessu ári og mögulega ekki heldur á næsta ári. Allar okkar aðgerðir miða hins vegar að því að ef það léttir eitthvað til, það birtir til að nýju, þá verðum við tilbúin til þess að nýta tækifærin í þeirri stöðu.

Það er rétt sem hér kemur fram að menn hafa rýmkað mjög heimildir fyrir ríkisaðstoð og mér finnst sjálfsagt að við nýtum okkur það. Ég tel reyndar að það sem við erum að gera í dag sé dæmi um að við erum að spila inni í því nýja rými. Við teljum ekki að við séum að rekast á ríkisaðstoðarreglur með brúarlánunum sem við höfum nefnt. En ég myndi vilja biðja menn um að gæta sig á því að beina sjónum sínum eingöngu að ferðaþjónustunni. Það er alveg augljóst að fyrirtæki sem eru bara lauslega tengd ferðaþjónustu verða fyrir gríðarlegum skakkaföllum. Eigum við að taka bara leigubíla, svo dæmi sé tekið af handahófi um einhverja sem sjá hrun í tekjum sínum þrátt fyrir að vera kannski ekki beint starfandi í ferðaþjónustunni sem slíkri? Svona væri lengi hægt að telja, það væri hægt að ganga upp allan Laugaveginn og benda til hægri og vinstri handar á fyrirtæki sem verða fyrir áhrifum en eru kannski ekki skilgreind í venjulegu tali sem ferðaþjónustufyrirtæki.