150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[10:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þær forsendur sem hann gefur sér í spurningunni eru réttar. Því miður er það svo að skortur á hjúkrunarfólki er viðvarandi og fyrirsjáanlegt verkefni heilbrigðisþjónustu um allan heim. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur á það áherslu nú á ári hjúkrunar, þar sem hjúkrun er í forgrunni og við ætlum að vera meðvituð um það hversu mikilvæg hjúkrun er, að það er fyrirsjáanlegur umtalsverður skortur á heimsvísu á þessari mikilvægu heilbrigðisstétt.

Ég hef sett á laggirnar starfshópa með aðkomu hjúkrunarfræðinga sem lúta að þessu mikilvæga verkefni, bæði að fjölga hjúkrunarfræðingum í gegnum menntunina og í kjarasamningsviðræðum sem eru yfirstandandi og hafa tekið allt of langan tíma. Hjúkrunarfræðingar hafa lagt alveg gríðarlega mikilvæg lóð á þær vogarskálar að breyta vinnutíma vaktavinnufólks sem er kannski stærsta skrefið til að draga úr kynbundnum launamun á Íslandi sem stigið hefur verið.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að þakka hjúkrunarfræðingum sem standa núna vaktina og tek undir það að við hjálpum þeim mest í þeirra vinnu með því að sinna þeim tilmælum sem við erum að fá frá sóttvarnalækni og öðrum stjórnvöldum og gæta að fjarlægð milli manna o.s.frv. Ég hef sjálf verið í samtali við formann Félags hjúkrunarfræðinga. Ég legg mjög mikla áherslu á að það náist samningar í þessari umferð. Það snýst um virðingu fyrir þessu mikilvæga vinnuframlagi í velferðarsamfélagi. Það er boðaður fundur með aðilum á morgun og ég vonast auðvitað til þess að þar verði hreyfing á.