150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[10:59]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Það væri mjög gagnlegt ef hæstv. heilbrigðisráðherra gæti jafnframt farið yfir stöðuna, þ.e. hver staðan er fram undan miðað við þau líkön sem stjórnvöld hafa sett upp vegna faraldursins. Hver er staða heilbrigðisstarfsfólks, hjúkrunarstarfsfólksins sem stendur í framlínunni, sem vinnur í návígi við fólk sem er smitað, er að hjúkra því? Hver er staða þess í dag? Hvert er álagið? Hvernig er fyrirséð að álagið muni aukast? Hvað eru margir hjúkrunarfræðingar sem eru ekki starfandi sem hjúkrunarfræðingar í dag? Við vissum það á tímabili. 200 sögðu lausum störfum sínum þegar sett voru lög á verkföll á sínum tíma. Hversu margir hafa komið til baka? Hversu marga vantar til að sinna því verkefni sem við stöndum frammi fyrir, sér í lagi þegar — ekki ef — hjúkrunarstarfsfólk smitast? Við vitum að það gerist um allan heim. Það er sú hætta sem það leggur sig í. Hver er staðan í framtíðinni með hjúkrunarstarfsfólkið okkar, (Forseti hringir.) hættuna sem það stendur frammi fyrir? Hvernig getum við fengið þá sem eru ekki starfandi á sjúkrahúsum aftur inn? Hvernig hefur ráðherra stillt því upp?