150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vinna nefnda við stjórnarfrumvörp.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæðan tón sem ég finn fyrir í þinginu um að eiga gott samstarf og segi að af minni hálfu og okkar í ríkisstjórninni stendur ekkert annað til en að eiga sem allra best samstarf um niðurstöðu þessara mála. Það er hægt að segja um aðgerðir ríkisstjórnarinnar að þessar tillögur eru ekki lagðar fram á grundvelli einhverrar vísindalegrar rannsóknar heldur þarf meira að leika ákveðna pólitíska list við að skapa nauðsynlegt traust og senda út rétt skilaboð um að við ætlum að standa öll saman í gegnum erfiðan tíma. Umfang aðgerðanna er ekki endanlegt en það hefur sín ytri mörk eins og við leggjum þetta núna fyrir þingið. Við fylgjum því eftir með því að segja að við munum áfram þurfa að fylgjast mjög náið með stöðunni.

Almennt myndi ég þess vegna vil ég segja að við ættum að geta verið sammála um að stöðugt endurmat þarf að eiga sér stað eftir því hvernig úr spilast næstu vikurnar. Samt sem áður er mikilvægt að klára þessi skref. Ég ætla ekki að standa í vegi fyrir því að menn geri breytingar eftir því sem ástæða þykir til. Ég get nefnt eitt dæmi um mál sem ég held að við ættum að reyna að hraða afgreiðslu á og ætti ekki að taka miklum breytingum í grundvallaratriðum, þ.e. það er umfang fjárfestingarátaksins. Ég vonast til að geta lagt fyrir ríkisstjórn á morgun þingsályktunartillögu um verkefnin sem eiga að fylla þessa 15 milljarða sem við ræðum hér í dag. Í samstarfi við þingið finnst mér sjálfsagt að við ræðum einstök verkefni, innbyrðis áherslur og annað þess háttar, en ég myndi síður vilja sjá menn fara í kapphlaup um að segja að það sé hægt að koma út öðrum 10 milljörðum eða öðru á kostnað ríkissjóðs að þessu sinni vegna þess að við þykjumst hafa farið nokkuð nákvæmlega yfir það hvað er raunhæft að geta gert í sumar. (Forseti hringir.) Við erum bara rétt að byrja þessa umræðu. Ég mun ekki segja þinginu fyrir hvernig það á að afgreiða málin fyrir fram.