151. löggjafarþing — 81. fundur,  20. apr. 2021.

skóli án aðgreiningar.

[14:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Við höfum í umræðunni hérna farið yfir víðari þætti margbreytileikans, margbreytileika sem er auðvitað til staðar í skólasamfélaginu eins og annars staðar í samfélaginu. Hv. málshefjandi vék t.d. að stöðu drengja í skólakerfinu. Það er mikilvægt að ræða ólíka stöðu kynjanna því að við viljum að öll kyn upplifi sig vel í skólakerfinu. Þar mætti líka nefna líðan stúlkna í skólum. Hún er verri en drengja, mögulega vegna þess að þær eru að brenna út við að reyna að passa inn í kerfi sem ekki hentar þörfum þeirra. Svo má ekki gleyma hinsegin börnunum og trans börnunum okkar sem glíma oft við mikla vanlíðan í skólanum. Síðan mætti nefna börn sem eiga önnur eða fleiri móðurmál en íslensku. Það þarf að auka aðstoð við skólakerfið til að börn geti þroskast í eigin móðurmáli samhliða íslenskunni. Í ljósi þess að menntamálaráðuneytið fór fyrir skemmstu í sérstakt átak til að fjölga körlum í kennaranámi til að drengir ættu fleiri fyrirmyndir mætti velta upp spurningunni: Hvað með átak í að fjölga kennaranemum með annað móðurmál og gera þeim kleift að jafnvel vinna á því móðurmáli innan skólakerfisins með börnum sem eiga það móðurmál með þeim? Það er með alla þessa þætti margbreytileikans að skólarnir þurfa fleira fólk og aukið fjármagn til að hlúa að þeim. Óháð kyni, greiningum eða móðurmáli nemenda þurfa kennarar og stjórnendur að fá tækifæri til að búa til umhverfi þar sem öll geta þrifist og þroskast á eigin forsendum í samræmi við áhuga og getu.