Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[16:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar reglur þar sem sérstakt tillit er tekið til þessa hóps voru að mínu áliti mjög mikilvægar á eftirhrunsárunum þegar skuldavandi heimilanna var jafn alvarlegur og við horfðum upp á þá. Við þurftum að áfangaskipta aðgerðum. Við fórum í sérstakar aðgerðir til að lækka skuldirnar hjá ákveðnum hópi fólks en það hjálpaði ekki þeim sem voru búnir að missa húsin og höfðu jafnvel lent í þroti. Þá var spurningin hvernig við gætum stutt við þann hóp. Ég held að það þurfi að vera matsatriði á hverjum tíma hversu langt við eigum að ganga í því að koma jafnt til móts við þá sem hafa í einhvern tiltekinn tíma verið utan fasteignamarkaðar og við fyrstu íbúðarkaupendur. En almennt höfum við verið að horfa til þess að lækka þröskuldinn fyrir ungt fólk sem er nýlega komið úr námi og er snemma á starfsævinni kannski neðar í launastiganum en seinna verður. Það er grunnhugmyndin.