152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:24]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði aðeins að nefna eitt varðandi það að geta nýtt þessa tilgreindu séreign til greiðslu íbúðar eða kaupa á húsnæði. Maður veltir fyrir sér: Er betra að ungu fólki sé hjálpað þegar það þarf á því að halda í byrjun eða að hjálpa því í endann? Fyrir mér getur það alveg verið beggja blands. Það gæti í mínum huga komið ungu fólki til góða að mega ráðstafa hluta af sínum lífeyrissparnaði til íbúðarkaupa. Ég vil þá að sjálfsögðu binda það við fólk sem er í sínum fyrstu íbúðarkaupum eða fólk sem hefur glatað húsnæði sínu og er að koma inn á markaðinn á nýjan leik, af því að ég lít þannig á að það að kaupa sér fasteign geti auðvitað verið lífeyrir til lengri tíma. Ef þú nærð að koma þér þaki yfir höfuðið þá ætti það að geta nýst þér sem lífeyrir til lengri tíma.