152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:25]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir spurninguna. Ég er að mörgu leyti mjög sammála þessu. Ég held að margir velti því fyrir sér, sérstaklega ef við förum í það skref að fólk hefur verið að leggja fyrir 15,5% af launum sínum og á erfitt með að spara fyrir útborgun — auðvitað er mjög eðlilegt að við veltum þessu fyrir okkur. Vandinn er bara sá að þetta er mjög almennt úrræði og nýtist ofboðslega mörgum. Almenn úrræði eru þess eðlis að þeir sem hafa mesta svigrúmið til að nýta þau, alveg eins og ég nefndi hérna áðan — liggur við helmingurinn, 50%, af þessu úrræði fór til tekjuhæstu 10% í landinu. Og við vitum að þetta er peningur sem flæðir allur inn á fasteignamarkaðinn og skapar þar með samkeppni og þenslu, og þá hækkar verðið fyrir fólkið sem kemur næst, unga fólkið sem er að spara sér fyrir íbúð. Þá þurfum við aðeins að velta fyrir okkur hvort þessi úrræði eigi að vera sértækari, hvort við eigum þá frekar að fara í almennari úrræði á íbúðamarkaði en að fara í skattaívilnanir til einstaklinga sem þurfa e.t.v. ekki á því að halda, á meðan aðrir einstaklingar þurfa aðstoð. Þetta er t.d. þekkt í sögunni hér á Íslandi þegar farin var sú leið að afnema verkamannabústaðakerfið sem gerði það að verkum að tekjulágir áttu að sækja um há lán hjá Íbúðalánasjóði, sem var að mörgu leyti ágætishugmynd. Vandinn birtist þegar 90% lánin voru útvíkkuð til allra landsmanna og er rótin að því að við sitjum uppi með mörg hundruð milljarða króna þrot Íbúðalánasjóðs, vegna þess að öllum var hleypt í 90% lán. Allir hlupu út um sömu dyrnar á sama tímanum, og það þrýsti upp fasteignaverðinu. Þannig að þetta fer að snúast um hvernig við nýtum peningana, í hvað, sérstaklega í dag þegar við horfum upp á að það er endalaust verið að tala um forgangsröðun í ríkisfjármálum, forgangsröðun um hvernig hið opinbera hagar sér af því að það hefur þensluhvetjandi áhrif. Þá þurfum við að horfa á hvort það séu betri leiðir til að hjálpa fólki beint sem þarf á aðstoð að halda frekar en að hleypa almennu fjármagni inn í kerfið til allra.