152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[17:52]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Það hefði reyndar verið gaman að hafa hann með okkur hérna í umræðunum en það er að sjálfsögðu þannig að allt sem snýr að lífeyrismálum eru hlutir sem við öll höfum, ja, bæði áhyggjur af en líka skoðanir á. Við erum með kerfi sem hefur þróast í gegnum árin og, að mínu mati alla vega, að vissu leyti til hins betra. En það er margt sem má laga og má líka skoða hvort eigi að breyta.

Þetta ákveðna frumvarp er, eins og hæstv. ráðherra benti á, hluti af lífskjarasamningum sem gerðir voru og því ýmislegt í því frumvarpi sem vinnumarkaðurinn hefur komið sér saman um og kannski ekki okkar að vera endilega að hrófla í því heldur frekar að gera þeim kleift að fylgja því.

En eins og í öðrum málum tengdum lífeyrissjóðum sem komið hafa á þingið hingað til þá hef ég verið ötull talsmaður þess að auka gagnsæi í öllu sem snýr að lífeyrissjóðunum og rekstri þeirra. Þar er ég t.d. að fjalla um það hvaða kostnaðarliðum við sem borgum inn í lífeyrissjóðina erum í rauninni að taka þátt í og hvaða þóknanir eru teknar af okkur. Þetta eru allt saman hlutir sem hvergi koma fram. Ef maður reynir að fara inn á ársskýrslur eða heimasíður lífeyrissjóða þá er mjög erfitt að finna nokkra svona hluti. Ég hef nefnt dæmi um að þegar þetta var gert að lögum í Bandaríkjunum, að það þurfti að vera með meira gagnsæi í þessum málum, þá fór fólk að hugsa betur um það hvert það var að setja peningana sína og gat séð það, ekki bara eina tölu sem er ávöxtun heldur hver kostnaðurinn var. Það getur verið þannig að það sé 7% ávöxtun á ári en ef ég borga líka 5% umsýslugjald á ári þá er ávöxtunin í raun bara 2%. Þannig að þetta þarf allt saman að vera miklu gagnsærra og auðveldara að átta sig á þessu.

Ég er kannski ekki alltaf sammála hæstv. fjármálaráðherra en þegar kemur að þessum málum þá er ég sammála honum í því að ég myndi vilja sjá aukið frelsi, t.d. að það væri auðveldara að flytja sig á milli sjóða. Ég er sjálfur með innstæður í einhverjum fjórum, fimm, sex sjóðum af því að ég hef unnið í mismunandi geirum og nú síðast er ég í lífeyrissjóði ríkisins vegna þess að ég starfa hér á þingi. Það er í rauninni mjög erfitt að hafa góða yfirsýn yfir þetta allt og ég get ekki fært upphæðirnar á milli.

Ég er ekki alveg sammála kollega mínum, hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, um að það skipti ekki máli hvort hægt sé að leggja inn í sjóðinn fyrir eða eftir skatta. Það er nefnilega þannig þegar vaxtavextirnir koma inn í þetta að það getur skipt máli hvort fólk er að borga í upphafi eða í lokin. Til dæmis í Bandaríkjunum, þar sem ég hef unnið, eru til sérstakar tegundir af lífeyrissjóðum sem fólk getur lagt inn í eftir skatta, það eru takmörk á því hversu mikið á hverju ári, en þetta eru peningar sem vaxa síðan skattfrjálst.

Við höfum rætt heilmikið hér um húsnæðismálin og það að nýta séreignarsparnaðinn í að geta keypt sína fyrstu eign, eða eins og ef þetta frumvarp verður að lögum, að fólk sem ekki hefur átt eignir í fimm ár geti keypt. Þó svo að þetta sé kannski möguleiki sem margir eru að nota núna þá myndi ég, rétt eins og hv. þm. Kristrún Mjöll Frostadóttir nefndi, gjarnan vilja sjá fleiri valkosti fyrir ungt fólk. Þó svo að í dag sé þetta kannski eina leiðin fyrir ungt fólk til að spara sér pening til að geta keypt sér sína fyrstu eign þá ættu valkostirnir að vera fleiri. Við þurfum virkilega að taka okkur á og finna leiðir og ég hvet hæstv. fjármálaráðherra og aðra ráðherra í ríkisstjórninni til að vinna með Alþingi og öðrum í því að skapa nýjar lausnir vegna þess að í dag erum við að sjá að þessi aðferð að hafa það opið að nota séreignarsparnaðinn, á húsnæðismarkaði sem er hreint og klárt klikkaður eins og er, maður er að sjá íbúðir hækka um 5–10 millj. kr. á nokkrum mánuðum í verðmæti, og jafnvel að koma 50–60 tilboð í hverja íbúð sem kemur, og hvert þeim mun hærra — þetta gengur náttúrlega ekki til framtíðar og við þurfum að finna leiðir. Ég held að ef við virkilega ræðum málin og setjumst niður þá sé hægt að finna breiða samstöðu, bæði innan þings og utan um þessi mál, ég hef trú á því.

Það þarf líka að hugsa hvernig allir þessir hlutir hafa áhrif á þá sem njóta þjónustu almannatrygginga. Við erum nú bara nýlega búin að heyra dæmi um fólk sem var að fá íþróttastyrk í miðju Covid en allt í einu núna er Tryggingastofnun að taka af því pening af því það fékk of mikinn pening í fyrra. Hvað gerist svo ef ég nota séreignarsparnaðinn minn eða geri eitthvað? Við þurfum virkilega að fara að laga það og passa að það sé ekki endalaust þannig ef við búum til eina lausn við einu vandamáli að þá séum við að búa til vandamál í hinu kerfinu. Þessu hljótum við að geta líka farið í saumana á og tryggt að þarna sé ekki verið að fara í að búa til enn fleiri vandamál í tengslum við þetta. Alla vega lýsti hæstv. fjármálaráðherra því yfir að hann vildi passa að þetta gerðist ekki þannig að við skulum vona að hann sé til í að vinna í því á öðrum sviðum líka.

Það eru líka mál, eins og var nefnt hér áðan, um stjórnir. Hverjir eru að stjórna þessum lífeyrissjóðum? Hver er fjárfestingarstefnan þeirra? Hversu aðgengilegt er það fyrir okkur sem erum sjóðfélagar? Til dæmis í sameignarsjóðunum þá bara fær maður að vita: Ég fæ svona mikið ef ég held áfram að borga þangað til ég er 67 ára. Ég fæ ekkert að vita hvernig verið er að fjárfesta þessu eða hafa nein áhrif á það. Það kemur náttúrlega líka inn í þetta með valkostina, að geta flutt sig á milli ef mér líkar ekki hvað einhverjir lífeyrissjóðir eru að gera, að ég geti flutt það yfir í annað. Þetta eru hlutir sem við þurfum að ræða og átta okkur á.

Mig langar líka að vekja athygli á einu sem er að vissu leyti tekið inn í séreignarsparnaðinn í þessu frumvarpi. Við þurfum líka að reyna að hugsa svolítið til þess að það er enn þann dag í dag þannig að það eru pör þar sem kannski er bara annar aðilinn á vinnumarkaði og þar af leiðandi er hinn aðilinn ekki að byggja upp lífeyri á sama tíma. En síðan er það þannig þegar maður eldist og fellur frá að þá er viðkomandi maki ekki með sömu réttindi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að átta okkur á og að reyna að finna út úr því hvernig getum við tryggt það að — það er ekki þannig hjá öllum að báðir aðilar séu alltaf úti að vinna og við þurfum að tryggja að báðir aðilar hafi réttindi. Það er hreint og klárt jafnrétti og jafnréttismál.

En ég held að það sé mikilvægt að þegar viðkomandi nefnd fer í gegnum þetta, efnahags- og viðskiptanefnd — það er von mín að þau horfi ekki bara á það sem er í þessu ákveðna frumvarpi heldur taki líka tillit til athugasemda og annars sem hefur komið hér í þingsal, því að það er mikilvægt fyrir okkur öll að tryggja að lífeyrisréttindi allra, bæði þeirra sem eru ung og eru að byrja á vinnumarkaði núna og okkar sem erum komin nálægt lífeyrisaldrinum og sum komin á lífeyrisaldurinn, ég horfi hér á hv. þm. Tómas A. Tómasson sem er orðinn aðeins eldri en ég — við þurfum að tryggja að allir geti átt gott ævikvöld.