152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[18:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða (lágmarkstryggingavernd, tilgreind séreign o.fl.). Því miður verður að segjast eins og er að þessi lífeyrisréttindi eru orðin svolítill frumskógur.

Í kafla 2.2 í greinargerð, Lágmarksréttindi, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í gildandi lögum er lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir 56% af meðalævitekjum yfir 40 ára inngreiðslutímabil …“

Hvað segir þetta okkur, 56% yfir 40 ára tímabil? Það segir okkur að viðkomandi aðili, sem er kannski á lágmarkslaunum í þau 40 ár sem hann borgar í lífeyrissjóð, fær rétt rúmlega helminginn af því sem hann var með áður útborgaðan. Það þýðir auðvitað fyrir flesta sem eru í þessari aðstöðu að þeir þurfa að skera stórlega niður, sérstaklega þeir sem fóru líka illa út úr bankahruninu og öðru. Þeir eru kannski rétt komnir á þann stað að vera komnir með þak yfir höfuðið aftur, margir misstu húsnæði sitt, en þeir hafa heldur ekki þann rétt sem er veittur unga fólkinu sem má sem betur fer nota séreignarsparnaðinn sinn skattlaust upp í fyrstu íbúðarkaup. Það er mjög gott en að sama skapi ákveðin áhætta sem fylgir því sem hver og einn verður að átta sig á.

Hér erum við líka að tala um að það á að hækka inngreiðslur í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5%, sem er 3,5% hækkun sem fólk má nota í séreignarsparnað. Ég segi fyrir mitt leyti: Auðvitað á að nota þetta í séreignarsparnað. Það segir sig sjálft að það er eini virkilega fasti peningurinn í hendi. Það sem hefur heldur ekki verið rætt og er í þessu kerfi kemur fram í frumvarpi sem við lögðum fram í Flokki fólksins um að greiða skatt af þessu í inngreiðslu, sem sagt við innborgun í sjóði. Ástæða þess að við fórum fram á það var vegna þess að við áttum að læra af reynslunni í hruninu þegar hundraða milljóna skattgreiðslur töpuðust, uppreiknað örugglega komið nálægt 1.000 milljörðum í dag og rúmlega það. Það er enginn sem getur sagt að þetta geti ekki skeð aftur. Þetta er því miður möguleiki. Síðan er það þessi furðulega leið að þegar búið er að setja peninginn skattlausan, þ.e. ekki búið að borga skatt af honum, inn í sameiginlegan sjóð er farið að gambla með það á markaði. Það held ég að sé í eina skiptið sem er hægt að fara með skattpening á markað í áhættufjárfestingu í sjálfu sér sem er engin leið að átta sig á hvort skilar sér, hvorki til þeirra sem eru að taka út lífeyrinn né í formi skatta. Það sem er svo ósanngjarnast af öllu, og hefur margoft verið bent á, er þegar borgaður er síðan fullur skattur af þessu, hvort sem það er fjármagnið sem var sett inn, sem er bara hluti af launatekjum, og síðan ávöxtunin, sem er ekkert annað en fjármagnstekjur og ætti auðvitað að lúta allt öðrum lögmálum — í sjálfu sér ætti sá hluti ávöxtunarinnar sem kemur ofan á bara að vera með fjármagnstekjuálagningu, 22% ef ég man rétt. Þá væri það sanngjarnt.

Það er svolítið skrýtið að við erum að setja núna í séreignarsparnað og við erum með ýmsar reglur, eins og hefur komið fram. Það er hægt að fá skattleysisafsláttinn og setja hann inn í íbúðir. Það var gefin út tilkynning til þeirra sem gátu jafnvel tekið út séreignarsparnaðinn á Covid-tímabilinu. En á sama tíma og ákveðnir einstaklingar í almannatryggingakerfinu fóru að trúa því að þetta væri einfalt mál, tóku út séreignarsparnaðinn sinn og nýttu hann, þá lentu þeir síðan í því að hann var ekki bara tekinn allur út heldur var hann tapaður, og það eftir að hafa tekið út séreignarsparnaðinn til að redda sér. Ég spyr mig bara: Hvernig í ósköpunum getum við aftur og aftur sett lög sem skaða hreinlega fjárhagslega þá verst settu, þá sem þurfa mest á þessu að halda? Síðan hlýtur það að vera saga til næsta bæjar að þegar viðkomandi reynir að leita réttar síns hjá Skattinum þá bendir Skatturinn á ríkisstjórnina og ríkisstjórnin bendir á Skattinn og enginn vill gera neitt. Það er grafalvarlegt mál þegar verið er að leika sér svona með tekjur fólks og fólk situr eftir með beiskt bragð í munni eftir að hafa nýtt þann litla sparnað sem það átti í viðkomandi séreignarsparnaði og sitja uppi með tap.

Það var svolítið merkilegt í svari hæstv. forsætisráðherra í dag í óundirbúnum fyrirspurnum þegar hún sagði: Því hærri tekjur, þeim mun hærri skattar, þegar bent var á að það væri mismunandi hvað einstaklingar borga í skatta þegar þeir taka út séreignarsparnaðinn sinn. Það er auðvitað alltaf spurning um hvenær fólk tekur hann út. Sumir þurfa að taka hann út þegar þeir eru með góðar tekjur og ætla sér að nýta hann í einhverju sérstöku tilfelli og þurfa þá að borga 47% skatt af honum, eða bara hæsta skattþrepið, sem er blóðugt vegna þess að þarna erum við komin kannski 10% yfir það sem er væri eðlilegt að þú borgaðir, 37%.

Það er alltaf verið að mismuna fólki á furðulegan hátt og ég spyr mig bara: Hvers vegna? Af hverju er verið að gera þetta? Ég var alltaf sannfærður um að þetta væru bara einhver mistök sem hægt væri að leiðrétta en þetta er aldrei leiðrétt þannig að þetta eru ekki mistök. Þetta er vísvitandi og viljandi gert og þarna er oftast verið að hampa að mörgu leyti þeim sem síst skyldi. Það getur verið sérstaklega blóðugt í þeim tilfellum þegar fólk er að taka út þennan pening vegna nauðsynjar. Það var maður sem stoppaði mig um daginn og vildi ræða við mig um lífeyrismál og hann benti á þá furðulegu staðreynd að þegar hann þurfti að fara í læknisaðgerð og ákvað þar af leiðandi að taka út séreignarsparnaðinn sinn til að standa undir henni þá þurfti hann að borga fullan skatt af því. Hann ætlaði sér ekki að taka þetta á þessum tímapunkti en ástæðan fyrir því að hann gerði það var að hann sá fram á að ef hann færi eftir því sem kerfið sagði honum, ef hann ætlaði að bíða eftir því að fara í þessa aðgerð, sem var tveggja, þriggja ára biðlisti eftir, þá myndi hann lenda í stökustu vandræðum. Hann myndi sennilega missa hlutastarfið sem hann var í og þetta gæti valdið honum ýmsum óþægindum. Honum var bara stillt upp við vegg. Í staðinn fyrir að fá viðkomandi þjónustu sér að kostnaðarlausu í kerfinu varð hann að gjöra svo vel að fjármagna hana sjálfur og taka út séreignarsparnaðinn til að komast í aðgerðina.

Síðan var annar sem lenti í því að þurfa að fara í sérstaka aðgerð og var utan af landi og þurfti að borga 300.000 kr. fyrir aðgerðina. Sá átti að bíða í 18 mánuði til að láta lagfæra sjón. Og ef hann léti ekki laga sjónina myndi hann missa réttinn til að keyra. Viðkomandi var á lágmarkslífeyri, ekki með háan lífeyri, og þessi aðgerð kostaði nákvæmlega einn mánuð af árslífeyri hans. Hann spurði mig hvað hann ætti að gera. Hann hafði ekkert val og þar af leiðandi varð hann að skera niður til þess að geta staðið undir framfærslu sinni þennan mánuðinn. Það er sorglegt að við skulum vera með fullt af dæmum um fólk sem er í stökustu vandræðum með að framfæra sig og svo er annar hópur sem er að hokra á lágmarkslífeyri. Við verðum að átta okkur á því að manneskja sem hætti að vinna fyrir kannski tíu árum síðan og fór á eftirlaun en átti engan séreignarsparnað fær 56% af lágmarkslaunum. Þetta er ekki flókinn útreikningur. Viðkomandi má þakka fyrir að ná 300.000 kr. með bótum Tryggingastofnunar í útgreiðslu. Það lifir enginn á því. Að það skuli ekki vera séð til þess að þessir einstaklingar — að við skulum ekki samhliða þessu frumvarpi vera að ræða frítekjumörk lífeyrissjóðs, 25.000 kall. Þetta eru smáaurar. 25.000 kr. eru ekki neitt. Og hverjum bitnar þetta mest á? Jú, konum. Þær hafa lægsta lífeyrinn. En á sama tíma segjum við: Ef þú ert að vinna færðu 200.000 kr. frítekjumark. Við gætum t.d. verið með 100.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóðnum en betra væri ef frítekjumarkið væri 200.000 kr. Það myndi gjörbreyta aðstæðum hellings af fólki í þjóðfélaginu.

Svo er það stóri hópurinn sem við gleymum alltaf; þeir sem eigi hvorki í lífeyrissjóði né séreignarsparnaði, eiga hvorugt og þurfa þar af leiðandi að lifa á strípuðum launum. Við erum líka með hóp sem er það illa staddur að hann fær 10% minna en lágmarkslífeyri. Við erum alltaf að búa til eitthvert kerfi sem hampar sumum en lemur á öðrum. Ljótast af öllu er þegar kerfið tekur sig til og platar fólk hreinlega, segir: Núna máttu taka út séreignarsparnaðinn. Núna máttu nota hann. Og svo þegar þú ert búinn að gera það: Nei, heyrðu, þú þurftir að haka við þarna í skattskýrslunni, gera hitt og þetta. En þeir sögðu það ekki fyrir fram heldur eftir á og létu fólk sitja í þeirri súpu sem þetta skapaði þeim. Þetta var það fólk sem þurfti mest á þessu að halda en lendir verst í því.

Ég fagna því að fram sé komið þetta frumvarp um 3,5% aukningu. Ég held að eina skynsemin í þessu öllu fyrir fólk sé að setja þetta inn í séreignarsparnaðinn. Ég veit af eigin reynslu og við vitum að fólk veikist, jafnvel deyr, sextugt, 62, 64 ára, og það fær ekkert úr lífeyrissjóði. Það er ekki komið inn í lífeyrissjóðakerfið. Makinn situr eftir með einhverja smá sárabót, makalífeyri og annað, en stærsti hlutinn fer í hítina. Ef viðkomandi væri með eitthvað að ráði í séreignarlífeyrissparnaði væri það aftur á móti erfanlegt. Því held ég að við þurfum að breyta í þessu kerfi. Viðkomandi hefur kannski borgað í lífeyrissjóð í 40 ár, verið giftur allan þann tíma og annar aðilinn verið fyrirvinnan. Það þarf að vera hægt að loka því þannig að það sé a.m.k. séð til þess að hinn aðilinn fái þau réttindi sem viðkomandi fékk aldrei.