152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[18:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni kærlega fyrir prýðisræðu eins og hans er von og vísa þegar rætt er um þennan málaflokk. Við erum ekki vön að koma að tómum kofanum þar. En ég hjó sérstaklega eftir orðum hv. þingmanns um séreignarsparnað og úttekt hans. Hann gagnrýndi að það er opið á að fólk sem er með fullar tekjur á einn eða annan hátt geti tekið út séreignarsparnaðinn og greiðir af honum í hæsta skattþrepi. Ég get tekið undir það og mér hefur þótt um nokkurt skeið ásókn stjórnvalda, ef svo má að orði komast, í þennan séreignarsparnað, sem til var stofnað á sínum tíma af sérstökum ástæðum, þetta er lífeyrissparnaður, vera orðin svolítið mikil. Ég get alveg tekið rökræðu um mikilvægi þess að fólk geti tekið þennan sparnað út til kaupa á húsnæði með þeim rökum að það er líka ákveðinn lífeyrissparnaður fólginn í því að eiga fasteign og í ljósi stöðunnar er það mikilvægt úrræði fyrir mjög marga að geta keypt eða fjárfest, keypt hlut í eigin húsnæði. Mér hefur hins vegar þótt við ansi fljót að opna á þetta fyrir önnur úrræði, alltaf þegar á bjátar eða þegar kemur eitthvert högg í okkar ágæta sveiflukennda hagkerfi. Ég heyri að hv. þingmaður var á sömu nótum þannig að ég velti fyrir mér hvort hann hafi mótað sér skoðun á því hvar við ættum að láta staðar numið, hvort við ættum að halda okkur við upprunalega tilganginn, að fólk geti við ákveðinn aldur eða þegar það lætur af störfum tekið út, en einskorða síðan undanþágur við húsnæðiskaup, (Forseti hringir.) eða að halda áfram á þessari braut.