152. löggjafarþing — 81. fundur,  30. maí 2022.

hækkun lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs.

690. mál
[18:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Jú, ég er alveg sammála. Það sem mér finnst líka skrýtið og ég hefði viljað að við værum að ræða líka, er að við vitum að það varð bankahrun og fullt af fólki missti íbúðina sína. Það er fullt af fólki á leigumarkaði sem missti íbúðina sína og borgar háa leigu. Og það er svolítið skrýtið því að ef við tökum fyrst séreignarsparnaðinn þá finnst mér í lagi að hjálpa unga fólkinu sem er að kaupa íbúð en við þurfum líka að hjálpa hinum sem eru fastir á leigumarkaðnum. Segjum að þú hafir ekki átt íbúð í tvö, þrjú ár t.d. — einhvers staðar sá ég talað um þrjú til fimm ár — þú hefur ekki átt íbúð í þrjú ár og verið á leigumarkaðnum. Af hverju ættir þú ekki líka að fá að nota séreignarsparnaðinn til að kaupa íbúð? Þú getur sýnt fram á að þú lentir kannski á leigumarkaðnum vegna þess að þú misstir íbúðina eða eitthvað kom upp á, fólk lendir í skilnaði og alls konar, það eru alls konar aðstæður sem geta komið upp. Þá erum við ekki að mismuna fólki. Þá segjum við við alla: Ef þú ert í þeirri aðstöðu að þú hefur dottið út af vinnumarkaði — og ég tala nú ekki um aðstæður einstaklinga sem eru að reyna að kaupa. Við vorum einmitt að ræða það í dag að það er eitt sem hefur líka alltaf gleymst í þessu en það er að öryrkjar í dag hafa ekki möguleika á að kaupa íbúð. Það myndi enginn trúa því hvað öryrki sem er á örorkubótum og slær inn sínar upplýsingar má kaupa. Þó að hann eigi kannski nokkrar milljónir þá má hann ekki kaupa íbúð nema fyrir kannski 20 milljónir. Það er engin íbúð til fyrir 20 milljónir. Þetta sýnir okkur svart á hvítu hversu arfavitlaus þessi markaður er. Við ættum auðvitað að hafa svona reglur. Svo eigum við auðvitað að hafa ákveðnar reglur um það að við borgum bara, segjum bara 37% skatt af þessum séreignarsparnaði. Við getum alveg sett þannig reglur svo við séum ekki að mismuna.