153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:50]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þér hafið ítrekað bent hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þann möguleika að taka skýrslu Ríkisendurskoðunar upp á fundi nefndarinnar og ég hafði íhugað það. Svo lagði meiri hlutinn til að við gerðum það og að sjálfsögðu varð ég við því. Það er hins vegar þannig, hæstv. forseti, eins og margoft hefur komið fram hér í þessum ræðustól, að það er náttúrlega ekki á færi nefndarinnar að létta trúnaði af greinargerðinni margumtöluðu. Það mál þurfum við einhvern veginn að leysa á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og það verður m.a. rætt á fundi nefndarinnar á morgun.

Hitt er, og hygg ég þá að hv. þingmenn meiri hlutans í nefndinni hafi kannski ekki alveg hugsað beiðni sína til enda, að í 19. gr. þingskapa er skýrt kveðið á um það hverja er hægt að boða á opna fundi og það er bara ekki hægt að boða hvern sem er á opna fundi þingnefnda. Ég bið hv. þingmenn að kynna sér það.