153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Því hefur ítrekað verið lýst af hæstv. dómsmálaráðherra, og eftir atvikum öðrum stjórnarþingmönnum, að með þessu frumvarpi sé verið að bregðast við einhverju sérstöku neyðarástandi. Stjórnlaust ástand, hafa menn sagt. Frumvarpið er sérstakt viðbragð við þeirri miklu og óhóflegu fjölgun hælisleitenda sem á að vera staðreynd í landinu og sumir tala um ógn í því samhengi. Hér er verið að blekkja fólk, höfum það í huga, það er verið að blekkja fólk. Þetta frumvarp hefur engin áhrif á það fólk sem hingað kemur frá Venesúela eða Úkraínu. Þetta frumvarp gerir ekki neitt til að bregðast við því sem menn kalla ógn, stjórnleysi eða neyðarástand. Það hefur ítrekað komið fram hjá þeim sem best til þekkja að það er ekki málið. Það eina sem þetta gerir er að setja u.þ.b. 10% hælisleitenda í enn verri stöðu. Fólk sem fyrir er í mjög viðkvæmri stöðu verður enn verr sett á eftir — lítill hluti þeirra sem þar eru undir. Við í Viðreisn greiðum atkvæði með því sáralitla sem bætt er inn til að bæta þetta mál en það er í raun og veru ekkert annað en pínulítið bótox á afar krumpaða húð. Þetta mál er vont og það skilar ekki því sem það á að skila.