153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er merkileg hræsni af formanni nefndarinnar að koma hingað upp og þakka öllum umsagnaraðilum fyrir innsend erindi en fara svo ekki neitt eftir þeim athugasemdum. Þetta mál hefur í för með sér mikla afturför og það felur í sér uppgjöf, uppgjöf þeirra þingmanna stjórnarmeirihlutans sem trúðu á og hafa hingað til talað fyrir mannúðlegri og frjálslyndari stefnu í málefnum flóttafólks gagnvart frekum minni hluta sem elur á andúð í garð útlendinga. Vinstri græn tala um mannúð í málaflokknum en greiða síðan atkvæði með ákvæði sem kveður á um að fólki á flótta sé vísað á götuna. Framsóknarflokkurinn, sem talar fyrir réttindum barna og barna á flótta, kýs með ákvæðum sem afnema rétt barna sem alast upp í íslensku skólakerfi og þekkja ekkert annað en íslenskan veruleika til áframhaldandi dvalar hér á landi. Þeirra er skömmin í dag.

Við í Samfylkingunni munum öll segja nei við þessu frumvarpi.