153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um útlendingalög vegna þess að hér hefur fólk sammælst um að það þurfi að hafa einhvern ramma utan um þennan málaflokk. Þá hlýtur að vera eðlilegt að þegar fólk hefur farið í gegnum þennan ramma, þetta ferli sem við erum að móta hér með þessum lögum, fengið til þess löglærða fulltrúa, býr í húsnæði á vegum ríkisins, fær heilbrigðisþjónustu og alla þá þjónustu, vegna þess að við viljum taka vel á móti fólki á flótta, við erum með opinn faðminn — (Gripið fram í.) en ef fólk fær synjun þá þarf fólk að víkja af landi brott. Svo einfalt er það. Í þessu ákvæði eru ýmsar undantekningar, sem öllum þingmönnum hér á að vera ljóst. Þær taka á þeim vandamálum sem upp kunna að koma en fái fólk synjun þá ber fólki að víkja. Það er svo einfalt, einmitt svo við getum tekið á móti öllum hinum sem þurfa á verndinni að halda og eiga rétt á henni samkvæmt íslenskum lögum og samkvæmt alþjóðasamningum. Ég segi nei.