153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég held það sé bara mikilvægt að lesa upp þetta ákvæði eftir þessa atkvæðaskýringu hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Í ákvæðinu stendur, með leyfi forseta:

„Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. er lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði hans til að geta ferðast.“

Ég vil bara að það sé alveg á hreinu að þetta er nákvæmlega það sem stendur í þessari grein. Þar er ekki talað um að afla samþykkis frá umsækjanda eða að lögreglan þurfi að biðja um eitthvert leyfi. Það er bara verið að gefa lögreglunni heimild til að afla þessara upplýsinga án dómsúrskurðar. Við skulum bara hafa það í huga að heilbrigðisupplýsingar eru viðkvæmar persónuupplýsingar sem alla jafna er ekki veittur aðgangur að, sér í lagi til lögreglu.