153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. 8. gr. þessa frumvarps er vond í alla staði. Ég vil vekja athygli sérstaklega á b-lið 8. gr., en þar kemur fram það sem ég hef svo sem áréttað hér áður, að það eigi að bæta við nýjum staflið þar sem stendur:

„Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: umsækjandi hafi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað enda þurfi hann ekki að sæta ofsóknum þar, geti óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.“

Það kemur reyndar fram í greinargerð að stjórnarliðum finnst ekki tilefni til þess að flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna sé endilega í gildi í móttökuríkinu sem stjórnarliðar vilja senda viðkomandi til. Það er heldur ekki skilyrði að viðkomandi hafi dvalarleyfi í þessu landi sem Útlendingastofnun á að geta ákveðið að senda fólk til. Það er vissulega þannig að það liggur ekki endilega fyrir að það sé einhver móttökusamningur þannig að það er ekki hægt að neyða fólk til að fara. Hvernig á að neyða fólk til að fara? Jú, með því að svipta það allri þjónustu. Þannig á að neyða fólk til að fara. Þessi samsetning er akkúrat það sem við erum að tala um þegar kemur að því að svelta fólk til þess að fara bara eitthvert annað, meira að segja þótt það sé lögfræðilega ómögulegt fyrir þau að gera það.