153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega skrípaleikur að vera hér með trilljón breytingartillögur, allt frá hv. þingmönnum Pírata, á einhverjum milljónum skjölum, mismunandi greinar. (Gripið fram í.) En hvað þessa grein varðar er það svoleiðis, svo að öllum sé það ljóst, að þetta er séríslenskt ákvæði. Við höfum sagt við stjórnsýsluna okkar: Þið skulið afgreiða svona mál innan 12 mánaða, annars fær viðkomandi efnismeðferð. Þetta eru sem sagt verndar- og Dyflinnarmál. Ég efast stórkostlega um það að þeir þingmenn sem tóku þátt í að setja útlendingalögin á sínum tíma, sem tóku gildi 2016, hafi gert sér grein fyrir því að það væri möguleiki á að misnota þetta ákvæði, að fólk gæti hreinlega ekki hlítt þeim fyrirmælum sem stjórnvöld leggja til og þannig þröngvað fram efnismeðferð. Það hlýtur öllum að finnast óeðlilegt að það sé hægt að vinna þannig með löggjöfina (Gripið fram í.) Þannig að auðvitað er eðlilegt að fólk fylgi þeim fyrirmælum sem löggjafinn hefur gefið og geti ekki breytt vinnslunni (Forseti hringir.) með einhverjum slíkum hætti. (Gripið fram í.) Börn eru auðvitað hluti af fjölskyldunni (Forseti hringir.) sinni, (AIJ: Nei.) það er bara þannig. (Gripið fram í: Nei, sjálfstæð efnismeðferð, réttindi barna.)(Gripið fram í: Þú veist að það er bannað að taka fram í.)[Háreysti í þingsal.]

(Forseti (BÁ): Þingmenn eru beðnir um að hafa hljóð í salnum.)