153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[20:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Þegar frumvarp til laga, sem varðar fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, flóttafólk, hefur það í för með sér að réttlætiskennd jafn margra er misboðið þá er ástæða til að hlusta. Þegar Alþýðusambandið, Barnaheill, Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Læknafélag Íslands, mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkurborgar, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, prestar innflytjenda og flóttafólks, Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samfés, Samtökin ´78, SOLARIS og UNICEF á Íslandi — þegar allir þessir sérfræðingar biðja okkur að hlusta er ástæða til að hlusta, hlusta og velta því fyrir sér hvort við séum að setja lög sem eiga að byggjast á mannúð með þeim hætti sem við eigum að gera. Það er nefnilega ástæða til að hlusta og velta því fyrir sér. Ég velti því fyrir mér hvort fulltrúar þeirra flokka sem hér í dag styðja þetta frumvarp ættu ekki að hlusta. Ég segi nei við þessu frumvarpi.