131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Rekstrarkostnaður Reykjavíkurflugvallar.

543. mál
[13:09]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta voru skrýtin svör hjá hæstv. ráðherra og alveg auðséð hverjum sem á hlýddi að hann firrtist við það að einhver hv. þingmaður dirfðist að spyrja einhverra spurninga um Reykjavíkurflugvöll. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að það er sá sem hér stendur sem ber fram þessa fyrirspurn en ekki þingmenn Samfylkingarinnar eins og hann hélt fram úr ræðustóli.

Það kom fram í svari ráðherra að árlegur rekstrarkostnaður — hann velur reyndar þá leið að draga tekjurnar frá — nemi rúmlega 200 millj. kr. á ári sem nettókostnaður ríkisins af því að reka Reykjavíkurflugvöll. Á einu kjörtímabili eru þetta þá á milli 800 og 900 millj. kr. En ég verð þá að spyrja hæstv. ráðherra varðandi tekjurnar sem hann hefur valið að draga frá gjöldunum: Er það skoðun ráðherra að þær tekjur komi ekki inn þó að flugið yrði annars staðar en í Reykjavík? Er ekki réttast að velta fyrir sér heildarrekstrarkostnaði af flugvellinum? Þá er kostnaður ríkisins við rekstur Reykjavíkurflugvallar um 1.200 milljónir á einu kjörtímabili og ætla mætti að tekjurnar kæmu jafnt inn hvar sem flugið væri staðsett á landinu.

Engin svör voru við því hvað mundi sparast ef flugið yrði flutt til Keflavíkur. Það er ekki vitað, sagði hæstv. ráðherra og hann hefur engan áhuga á að vita það. Engin vinna hefur farið fram til að kanna hver gæti verið sparnaður íslenska ríkisins af því ef innanlandsflug og annað flug sem fer um Reykjavíkurflugvöll yrði flutt til Keflavíkur.

Hvaða varðaði aukinn rekstrarkostnað íslenskra stjórnvalda í rekstri Keflavíkurflugvallar þá er svarið það sama. Það eru viðræður uppi, hæstv. ráðherra hefur engan áhuga á að tjá sig neitt um það hvort til greina komi að við förum (Forseti hringir.) að taka aukinn þátt í rekstri flugvallarins þar eða ekki. Ég verð að segja, frú forseti, að svör ráðherra eru rýr í roðinu.