133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þeir hagsmunir sem ég hef verið að benda á lúta fyrst og fremst að neytendum, að gæðum þeirrar vöru sem neytendur eiga aðgang að og náttúrlega líka verði og öryggi þeirrar framleiðslu. Það gerum við annars vegar með því að hafa mjög strangt eftirlit á innfluttum matvörum þannig að þær fullnægi a.m.k. öllum þeim skilyrðum sem við gerum til innlendrar matvælaframleiðslu. Við þekkjum þá umræðu, hvort sem hún er sönn eða ekki, en sá orðrómur gengur, að ekki sé öruggt að þau matvæli sem flutt eru til landsins og sögð vera upprunnin í einhverju Evrópusambandslandi hafi ekki bara komið þangað að og verið umstaflað á kæjanum í Hollandi.

Hagsmunir neytenda eru einmitt þeir að við getum tryggt það að hvort sem grænmetið eða svínakjötið er innflutt eða innlend framleiðsla uppfylli það þær gæðakröfur sem við gerum, númer eitt. Að öðru leyti að innflutningurinn sé ekki notaður til þess að mismuna innlendri framleiðslu.

Við viljum hafa hollar og góðar landbúnaðarvörur og getum þurft að leggja eitthvað á okkur til þess, og það gerum við. Um það hefur verið þjóðarsátt að standa traustan vörð um íslenska landbúnaðarframleiðslu. Þó svo að síðan sé leyfður einhver takmarkaður innflutningur á ákveðnum landbúnaðarvörum séu skilyrðislaust gerðar sömu gæðakröfur til þeirrar vöru og hinnar innlendu.