133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stjórnarfrumvarpið sem við greiðum hér atkvæði um er tæknilegs eðlis og munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðja það frumvarp. Í haust var ákveðið í þinginu með lagabreytingu að lækka verð á matvöru annars vegar með því að færa virðisaukaskattinn á matvöru úr 24,5% og 14% niður í 7%, og hins vegar að afnema vörugjöld af matvöru. Lýðheilsustöð hvatti til þess að gosdrykkir og sykraðir drykkir yrðu undanþegnir lækkununum og færði fyrir því rök. Þær breytingartillögur sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerir við stjórnarfrumvarpið eru samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar. Í erindi sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis barst frá Lýðheilsustöð í desembermánuði segir m.a., með leyfi forseta:

„Vert er að benda á að rannsóknir sýna að verðnæmi gosdrykkja er töluverð og verðlækkun þeirra hefur mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa sem almennt er erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi má nefna að unglingar eru mjög næmir fyrir verðbreytingum.“

Í bréfi Lýðheilsustöðvar er síðan vitnað í alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist, þar á meðal samkomulag sem undirritað var í Istanbúl í Tyrklandi í nóvember sl. á milli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Evrópuríkja, en í þeim sáttmála er vikið að þessum þáttum m.a. Svo ég vitni áfram í niðurlag bréfs frá Lýðheilsustöð, þá segir þar, með leyfi forseta:

„Í sáttmálanum eru stjórnvöld kölluð til ábyrgðar auk þess sem kallað er eftir enn meiri samstöðu og samvinnu milli allra hagsmunaaðila en verið hefur: opinberra aðila, iðnaðarins og einkamarkaðar, frjálsra félagasamtaka, einstaklinga og fjölskyldna.

Því skýtur skökku við að á sama tíma skuli stjórnvöld hér á landi leggja til breytingar á sköttum og gjöldum sem leiða til lækkunar á verði sykraðra drykkja og þar með væntanlega um leið aukinnar neyslu þeirra.“

Ég spyr: Ætlar Alþingi ekki að hlíta þessum ráðleggingum og þessum áskorunum frá Lýðheilsustöð? Það viljum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði gera enda eru í erindi Lýðheilsustöðvar reidd fram mjög sterk og áhrifarík rök.