136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

íslenskt viðskiptaumhverfi.

[15:14]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Þessari fyrirspurn er í raun auðsvarað því að ég er sammála hv. þingmanni Helgu Sigrúnu Harðardóttur, bæði um forsöguna sem hún lýsti ágætlega og um nauðsyn þess að þessu verði breytt, þ.e. að tekið verði á því í hlutafélagalögunum að við getum ekki haft stjórnarformenn sem í reynd eru framkvæmdastjórar viðkomandi fyrirtækja jafnvel þótt annar maður beri formlega séð heiti framkvæmdastjóra.

Eins og hv. þingmaður nefndi mætti þetta verulegri andstöðu á sínum tíma, m.a. hjá þeim sem bentu á að mörg íslensk fyrirtæki þá voru með starfandi stjórnarformenn og töldu að það hefði gefist vel. Nú held ég að óhætt sé að fullyrða, því miður, að reynslan sýnir að þetta fyrirkomulag gafst ekki vel. Mörg þessara fyrirtækja eru nú í verulegum kröggum eða jafnvel orðin gjaldþrota. Á því eru auðvitað margar skýringar og ekki eingöngu þetta skipulag en ég held að sú niðurstaða hversu illa þessi rekstur gekk þegar upp var staðið renni stoðum undir að æskilegra sé að hafa skýrari skil á milli stjórna fyrirtækja sem hafa þá eftirlitshlutverk, auk þess að hafa stefnumótunarhlutverk og síðan framkvæmdastjórna fyrirtækja, eins og reyndar var hugmyndin með því að sett voru í lög ákvæði, sem er enn þá, um að ekki megi kjósa framkvæmdastjóra sem stjórnarformann. Ráðuneytið mun beita sér fyrir því að þessu verði breytt en væntanlega samhliða öðrum breytingum á hlutafélagalögum sem ástæða virðist til að koma í gegn í ljósi reynslu undanfarinna missira af framkvæmd laganna.