136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni fyrir hvernig þeir hafa tekið undir þá þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi og ég mælti fyrir.

Ég sammála greiningu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í ummælum hans um málið. Ég tel að þar hafi það verið rétt greint.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson vakti sérstaklega athygli á þeim gríðarlega vanda sem heimilin standa frammi fyrir vegna þess að við höfum ekki mótað þá peningastefnu sem væri í raun hentug fyrir íslenska þjóð, fyrir atvinnuvegi eða fjölskyldur í landinu.

Það kom mér nokkuð á óvart miðað við það sem hv. þm. Pétur Blöndal hafði látið koma fram í andsvörum við mig vegna framsöguræðu minnar að hann skyldi mæla eindregið með því að tillagan næði fram að ganga, að vísu með breyttu orðalagi. Ég get fallist á að breyta orðalagi, ég reikna ekki með að það verði vandamál fyrir okkur Pétur Blöndal að ná samkomulagi um eðlilegt orðalag. Hér er fyrst og fremst verið að hreyfa hugmynd sem skiptir gríðarlega miklu máli og er lykillinn að lausn til að við komumst út úr því öngþveiti sem við erum í.

Hv. þm. Pétur Blöndal benti á kosti við að hafa krónuna, þ.e. launalækkun, það hefði lagað stöðu útflutningsgreina. Ef það eru kostir hefur verið samið með óeðlilegum hætti, þ.e. ef það þarf að lækka launin. Það á ekki að þurfa að grípa til sérstakra aðgerða til að hindra flökt á gjaldmiðlinum svo hægt sé að fría óábyrga samningamenn ábyrgð. (Gripið fram í.) Síðan segir hv. þm. Pétur Blöndal að ef hér hefði verið annar gjaldmiðill, eins og t.d. evra, hefði heldur betur verið eyðslufyllirí ef vextirnir hefðu verið lægri. Það er ekki endilega svo. Spurningin er alltaf um ábyrga útlánastefnu. Þar stöndum við frammi fyrir því að meginhluti íslenskra fjármálastofnana stundaði ekki ábyrga útlánastefnu og því er komið sem komið er.

Þá gerði hv. þm. Pétur Blöndal réttilega grein fyrir því að verðtryggingin væri í raun önnur mynt. Af hverju þurfum við að hafa aðra mynt í gangi hér á landi? Það er einfaldlega vegna þess að við treystum ekki krónunni. Krónan gengur ekki nema hafa þessa hækju sér við hlið sem er verðtryggingin, sem er núna ein helsta ógn við öryggi heimilanna í landinu.

Með sama hætti talaði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og taldi þetta athyglisvert mál. Hann sagði hins vegar að menn kenndu Sjálfstæðisflokknum um hvernig komið væri að öllu leyti í íslensku efnahagslífi en það geri ég ekki. Ég sagði að það væru ákveðnir aðilar sem hefðu þráast við að halda í þessa mynt. Ég teldi að það hefði verið óráðlegt og hefði verið vitlaus peningastefna. En það voru aðrir hlutir sem stjórnmálamenn gátu ekki gert sér grein fyrir, þ.e. hversu mikið eitur var í íslensku efnahagslífi, sérstaklega í bankakerfinu og víða annars staðar. Það væri hins vegar öðruvísi komið ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haldið sig við sín gömlu gildi og treyst meira á að menn ræktuðu með sér hagsýni og ráðdeild og treystu á einkaframtakið og smáfyrirtækin umfram það að fara á flug með milljarðamæringunum sem síðar reyndust ekki vera slíkir.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur iðulega blandað sér í umræðu af þessu tagi og gerði það með mjög góðum hætti áðan. Ég gat ekki greint annað en að hún tæki undir þau meginsjónarmið sem hér er um að ræða og ég þakka henni fyrir það. Í sama streng tók flokkssystir hennar, Eygló Harðardóttir, og benti á það vantraust sem íslenska ríkið býr við og Seðlabanki Íslands einnig miðað við óbreyttar aðstæður.

Þá kom að uppáhaldsmálinu, þ.e. spurningunni um evruna, sem hv. þm. Helgi Hjörvar, Pétur Blöndal og loks Björn Bjarnason komu inn á. Ég var mjög ánægður með þegar hv. þm., þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason vakti athygli á þeirri leið og benti á það sem ákveðinn kost að kanna hvort hægt væri að taka upp evruna án þess að gengið væri í Evrópusambandið. Ég taldi að sjálfsagt væri að reyna að gera það og tel að það hefði þurft að láta reyna á það til fullnustu og þá fyrst og fremst með því að taka upp viðræður við Evrópusambandið um það mál. Ég tel það mál hafa verið kannað nokkuð en ekki fullkannað og hefði verið betra að gera það á öðrum vettvangi en gert var á grundvelli Evrópunefndarinnar þar sem svörin voru öll mjög einhliða.

Varðandi þær umræður sem hafa orðið um regluverk Evrópusambandsins, ábyrgð á Icesave-reikningum og að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað um var að ræða — ég minnist ekki nákvæmlega hvernig menn greiddu atkvæði en ég hygg að hv. þm. Pétur Blöndal hafi greitt atkvæði með því að það regluverk sem tekið var upp varðandi fjármál og bankamál þegar það mál var til umfjöllunar hér á Alþingi Íslendinga. Hvað er þar um að ræða og hvað er það sem hv. þm. Pétur Blöndal gerði athugasemdir við áðan? Hann talaði um þann skuldaklafa sem íslensku þjóðinni væri búinn miðað við að farið yrði í samningaumleitanir um svokallaða Icesave-reikninga.

Þetta eru í raun reglur um neytendavernd, um lágmarksinnstæðutryggingu á bankareikningum til þess að tryggja hagsmuni neytenda. Með því á að skapa meira öryggi í fjármálakerfinu til þess að menn vilji nota þessar stofnanir. Það er sem sagt miðað við ákveðna lágmarksneytendavernd, ákveðna lágmarksfjárhæð sem ber að greiða út af ábyrgðaraðila hvers ríkis og það eru þær reglur sem um er að ræða.

Við hljótum að vera sammála því að slík lágmarksneytendavernd sé höfð. Vandamálið liggur ekki í því regluverki, það er rangt. Vandamálið liggur í því að heimila að bankakerfið yxi gjörsamlega öllu yfir höfuð og færi í þá útrás sem heimiluð var án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar eða aðhalds væri gætt hvað það varðar. Þar liggur vandinn en ekki í sjálfu regluverkinu. Það gat hins vegar enginn séð eða spáð fyrir um það eða áttað sig á því hversu helsjúkt fjármálakerfi heimsins var, einnig fjármálakerfið hér. Ég tel reyndar að það sé rangt ályktað að segja að það hefði engu máli skipt hvaða mynt við höfum. Ég tel og leyfi mér að fullyrða að við hefðum verið betur sett ef við hefðum haft evru eða þess vegna norska krónu eða dollar í októbermánuði árið 2008 vegna þess að það sem felldi íslensku bankana var að þeir fengu ekki erlendan gjaldeyri. Það kann vel að vera að þeir hefðu fallið en það var það sem felldi þá. Það var síðan í framhaldi af því sem efnahagshrun varð hér vegna þess að við vorum með ónýta mynt. Það er því hægt að fullyrða að það hefði skipt máli að við hefðum haft hér alvörugjaldmiðil hvort sem það var norsk króna, dollar eða evra, þegar þessir hlutir áttu sér stað.

Varðandi hvort aðild að Evrópusambandinu ógni landbúnaði eða náttúruauðlindum hygg ég að íslenskum landbúnaði sé meiri hætta búin þegar samningalota Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar nær fram að ganga sem mun gerast einhvern tíma innan skamms. Þá lýkur þeirri tolla- og aðstoðarvernd sem við búum við í dag varðandi landbúnaðinn. Það er svo annað mál.

Mergurinn málsins er sá eftir þá umræðu sem farið hefur fram að þeir þingmenn sem hafa kvatt sér hljóðs eru sammála um að brýna nauðsyn beri til að kanna hvaða kostir eru til þess að taka upp alvörugjaldmiðil á Íslandi.