136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir sérstaklega góða ræðu um þetta mál og góðar greiningar og ég er honum algerlega sammála í því sem hann hafði fram að færa. Hann benti á ákveðna hluti sem er vel þess virði að huga að og velta fyrir sér.

Eitt af því sem hv. þingmaður kom inn á var hvernig evrunni muni reiða af. Við erum að tala um gjaldmiðil sem átti nýlega 10 ára afmæli og að sjálfsögðu á evran nokkuð langt í land með að hafa endanlega sannað sig eða slitið barnskónum. Það liggur fyrir. En menn geta líka velt fyrir sér hvernig enska pundinu muni reiða af, jafnvel hvernig norsku krónunni muni reiða af eða hvernig dollaranum muni reiða af. Það liggur til að mynda fyrir að Bandaríkjamenn hafa um langa tíð stundað þá iðju að prenta dollara og flytja þess vegna iðulega vandamál í eigin hagkerfi til annarra. Þannig liggja margir með gríðarlegt magn dollara, talað er um að Asíuríkin, m.a. Kína, Indland og Indónesía, liggi með það miklar birgðir að ef þau færu að leysa út dollarana sína yrði gríðarlegt fall á dollaranum. Aðrir tala um að evran sé nú þegar allt of hátt skráð miðað við framleiðslugetu hagkerfa í Evrópu og hafi verið um nokkurt skeið. Þannig er hægt að velta þessu fyrir sér. Samt sem áður liggur fyrir að það er styrkur — alveg eins og þegar menn eru til sjós, þá er betra að vera á stóru skipi þegar vandamálin koma upp en á lekri kænu eins og við vorum á í okkar peningamálastefnu með okkar gjaldmiðil. Það er það sem reynir á núna, þ.e. styrkur myntkerfa eins og evrunnar og dollarans, þó að margs konar vandamál séu fyrir hendi innan þeirra gjaldmiðilssvæða.

Eitt sem fólk hefur staldrað við og talað um er að hlutirnir þróist á mismunandi hátt innan sama myntkerfis og þannig er það. Margir halda t.d. að sama verðbólga sé alls staðar innan sama myntsvæðis en svo er ekki. Þannig mældist t.d. á einum tíma verðbólgan í Dallas í Texas í kringum 6% meðan hún var um 0% í New York. Við getum velt því fyrir okkur: Hvað mældist verðbólgan í Reykjavík árið 2007? Var sama verðbólga t.d. á Ísafirði? Svarið er klárlega nei vegna þess að það sem dreif áfram verðbólguna í Reykjavík var hækkun húsnæðisverðs og hækkun vísitölunnar þar með en ekki var um það að ræða á Ísafirði. Þannig að jafnvel innan lítilla myntkerfa komumst við inn í þessi atriði.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson benti hins vegar á eitt sem er lykilatriði í þessu sambandi og það er að myntin endurspegli viðkomandi hagkerfi. Það skiptir máli. Í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram er í sjálfu ekki verið að taka afstöðu heldur fela ríkisstjórninni að gera nauðsynlega greiningu á því með hvaða hætti og hvað væri hagfelldast fyrir íslenska þjóð að gera í þessu sambandi. Það skiptir mestu máli.

Gagnrýni á peningamálastefnuna eins og hún var og það sem ég tók fram í framsöguræðu minni um það hve vaxtamunurinn var orðinn gríðarlegur — og ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni sem benti reyndar á það ásamt hv. þm. Bjarna Benediktssyni í blaðagreinum — að það gæti ekki staðist, það væri gersamlega útilokað að sú stefna gæti staðist að vera með þennan gríðarlega vaxtamun, að við værum stöðugt að flytja inn peninga, flytja inn erlenda mynt og út vexti. Við fluttum að vísu ekki út vexti af því að við tókum alltaf hærri og hærri lán. Við stöndum síðan frammi fyrir því vegna þessarar helstefnu að vera með þá verstu timburmenn sem menn geta nokkurn tíma fengið í einu efnahagslífi og sem nokkur þjóð í hinum iðnvædda hluta heimsins hefur nokkurn tíma fengið. Þess vegna er verið að tala um það vítt og breitt um heiminn þegar þjóðir lenda í vandræðum, hvort þær séu að verða eins og Reykjavík, því miður. Það er sú staða sem við stöndum frammi fyrir og það sem skiptir okkur máli er að öðlast trúverðugleika á nýjan leik. Lykillinn að því er að hafa mynt sem hægt er að treysta.