138. löggjafarþing — 81. fundur,  25. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[12:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort henni finnist að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel á undangengnum 12 mánuðum í því að koma til móts við vanda heimila og fyrirtækja, hvort henni finnist staðan í dag ásættanleg og hvort ekki hefði þurft að grípa til meiri aðgerða gagnvart skuldugum heimilum og fyrirtækjum.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort henni finnist það sanngjarnt að skuldir vel valdra manna séu afskrifaðar um tugi milljarða króna, á meðan ekkert er gert fyrir hin venjulegu heimili í landinu. Og mig langar að auki að spyrja hv. þingmann, af því að hún tjáði okkur að núverandi efnahagsástand væri ekki þessari ríkisstjórn að kenna, hvort það sé ekki rétt að þessi ríkisstjórn hafi nú verið við völd í á annað ár og hvort það sé ekki rétt að Samfylkingin hafi verið í ríkisstjórn í eitt og hálft ár í þarsíðustu ríkisstjórn, hvort Samfylkingin beri þar af leiðandi ekki ákveðna ábyrgð á því efnahagshruni sem hér varð.

Ég vil minna hv. þingmann á að við höfum nú verið að vinda ofan af vitleysunni hjá ríkisstjórninni er snertir viðræður um Icesave, þeir samningar bólgnuðu út í tíð Samfylkingarinnar sem var með viðskiptaráðuneytið. Ég spyr hv. þingmann: Telur hún virkilega að Samfylkingin beri enga ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er uppi? Hefur Samfylkingin ekki farið með stjórn mála í þessu landi?

Við getum velt því fyrir okkur hvort hv. þingmaður telji þá líka að ríkisstjórnin beri ekki ábyrgð gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum í landinu og stöðu þeirra vegna þess að sú staða er grafalvarleg. Við höfum nærri því á hverjum degi frá því að efnahagshrunið varð kallað eftir aðgerðum til handa skuldugum heimilum og fyrirtækjum. Það hefur komið í ljós að 80–90% af þeim sem hafa reynt að nýta sér greiðsluvandaúrræði ríkisstjórnarinnar segja að þau dugi ekki til. Ég spyr hv. þingmann: Er hún stolt (Forseti hringir.) af störfum ríkisstjórnarinnar?