140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór um mig þegar ég heyrði hæstv. ráðherra vísa til Kína. Ég held því miður að það hafi ekki verið neitt mismæli. Mér sýnist menn vera að horfa þangað.

Hvað sem því líður vildi ég spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga. Það er gert ráð fyrir að skattleggja sjávarútveginn gríðarlega á þeirri forsendu að hann sé svo arðsamur. Hér er verið að tala um 20 milljarða á ári sem er eins og að setja 400 milljarða skuld á sjávarútveginn en í öðrum löndum greiða menn með sjávarútveginum. Þetta er gert á þeirri forsendu að kerfið sé svo hagkvæmt, en á sama tíma á að reyna að gera það mun óhagkvæmara. Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta ganga upp? Þetta var fyrsta spurning.

Í öðru lagi spyr ég: Af hverju voru ekki könnuð áhrif á fjármálastofnanir og bankana? Þetta mun hafa gríðarlega slæm áhrif á afkomu ýmissa fyrirtækja.

Hefur síðan í þriðja lagi hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því að það verði minna um (Forseti hringir.) nýfjárfestingar, jafnvel að þær hætti alveg, sérstaklega á landsbyggðinni, í kjölfar þessarar auknu skattheimtu?