140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

609. mál
[16:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil upplýsa um það hér hvernig mál af þessum toga eru meðhöndluð í utanríkismálanefnd. Þegar fram kemur þingsályktunartillaga um að innleiða tilteknar gerðir Evrópusambandsins eru ákvarðanir sem sameiginlega EES-nefndin hefur tekið teknar með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara og verkefni utanríkismálanefndar þingsins er að fjalla um hvort aflétta eigi slíkum stjórnskipulegum fyrirvara. Þegar það er gert myndast þjóðréttarleg skuldbinding þannig að það er eðlilega á verksviði utanríkismálanefndar að fjalla um þá spurningu.

Hinn þátturinn sem fjalla þarf um er hvort efnisatriði viðkomandi tilskipunar sem síðan munu koma fram í lagafrumvörpum sem viðkomandi fagráðherrar flytja, séu atriði sem gera þarf fyrirvara við af okkar hálfu á því stigi. Verklagið hefur verið þannig hjá utanríkismálanefnd að þingsályktunartillögur af þessum toga eru sendar til viðkomandi fagnefnda og þær beðnar um að skila utanríkismálanefnd umsögn. Þær geta þá kallað til sín sérfræðinga eftir atvikum og veitt nefndinni umsögn. Það er því leitað eftir álitum viðkomandi fagnefnda um efnisatriði málsins, en um hinn hluta málsins sem varðar stjórnskipulegan fyrirvara og þjóðréttarlegar skuldbindingar er að sjálfsögðu fjallað faglega um af hálfu utanríkismálanefndar.