143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni. Það er algerlega óþolandi ástand sem Vestmannaeyingar mega búa við þessa dagana og ástæða til að hvetja hv. þingmann til að taka þetta málefni upp í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og hvetja ráðherra sína, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra til að taka á málinu og stuðla að það leysist með farsælum hætti. En í dag er stór dagur, á eftir fáum við að sjá skuldatillögur ríkisstjórnarinnar sem út af fyrir sig voru kynntar í nóvember og því miður ekki mikið nýtt í þeim fréttum sem verið er að segja. Þetta eru sömu fjárhæðirnar sem þar voru kynntar sem virðist eiga að kynna núna en það verður hins vegar fagnaðarefni að fá svör við mjög mikilvægum spurningum um þessar stóru aðgerðir.

Eitt af því sem er gríðarlega mikilvægt að fá svör við í dag er: Hvert eru þessir peningar að fara? Hverjir munu fá þá 72 milljarða sem á að leiðrétta skuldirnar um? Hvaða þjóðfélagshópur er það? Hverjar eru eignir þessa hóps? Hvaða tekjur hefur þessi hópur? Og hvernig dreifist það um samfélagið? Hér er náttúrlega verið að verja fjármunum til að styðja fólk með það að markmiði að það komist betur af og þá er mikilvægt að það renni til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda.

Það er líka mikilvægt að fá svör við því hvar lyklafrumvarpið er og hvað líði afnámi verðtryggingarinnar. Samkvæmt greiningu Seðlabankans munu vextir í landinu hækka um 0,8% vegna aðgerðanna. Ég hef enn ekki séð neinn fjölmiðil reikna út hvað það kostar árin 2016, 2017 og 2018 að vextir verði nærri 1% hærri. Hvað kostar það atvinnulífið? Hvað kostar það heimilin almennt í landinu? Hvað munu verðtryggð lán hækka um vegna þeirrar 1% af verðbólgu sem fylgir þessum aðgerðum að mati Seðlabankans? (Forseti hringir.) Hvað hækka neysluútgjöldin okkar, (Forseti hringir.) heimilanna í landinu um vegna 1% verðbólgu í kjölfar aðgerðanna o.s.frv.? Það eru þær spurningar sem við hljótum að kalla eftir svörum við næstu daga.