145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

Hús íslenskra fræða.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir undirbúningsvinna vegna fjárlaga í samræmi við ný lög þar um og raunar líka vinna við langtímaáætlun í efnahagsmálum og fjármálum ríkisins.

Við, ráðherrar í ríkisstjórn og ekki hvað síst í ráðherranefnd, höfum rætt um ríkisfjármál og hin ýmsu mál sem verið hafa til skoðunar og verða til skoðunar áfram. Við erum auðvitað öll sammála um það, ráðherrarnir og vonandi þingmenn líka, að aðstæður hafi batnað til mikilla muna hér á landi á síðustu missirum og árum efnahagslega. Þar af leiðandi kunna að vera að skapast forsendur til þess að ráðast í hluti sem ekki var raunhæft fyrir ekki svo löngu síðan.

Á móti kemur að menn vilja ekki ýta undir þenslu. Menn vilja ekki að ríkið sé í miklum stórframkvæmdum á sama tíma og mikil fjárfesting er í einkageiranum og jafnvel skortur á iðnaðarmönnum. Það breytir þó ekki því að ég hef heyrt það á ráðherrum míns flokks og samstarfsflokksins, sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um, að mikil jákvæðni er í garð þessa verkefnis og munu menn eflaust líta það áfram mjög jákvæðum augum í þeirri vinnu sem fram undan er.